Sigur hjá Martin og félögum í lokaleiknum

Íslenska U20 landsliðið fagnar í Þýskalandi. MYND: KARFAN.IS
Íslenska U20 landsliðið fagnar í Þýskalandi. MYND: KARFAN.IS

Það var mest allt á brattann hjá Israel Martin og lærisveinum hans í U20 ára liði Íslands sem hefur undanfarna daga tekið þátt í A-deild Evrópumótsins sem spiluð var í Þýskalandi. Allir leikir liðsins í riðlakeppninni og síðan þrír til viðbótar í keppni um sæti töpuðust, en síðasti leikurinn, gegn Rúmeníu þar sem spilað var um 15. sætið, vannst örugglega.

Sigurinn þýðir að Ísland endaði í 15 sæti deildarinnar og því næst neðsta. Fall í B-deild var staðreynd en ljóst var fyrir mótið að verkefnið væri ærið. Liðið lék á allsoddi í leiknum gegn Rúmenum sem fram fór sl. sunnudag. Boltinn gekk vel og lið Íslands var með gríðarlegan fjölda stoðsendinga og góða þriggja stiga nýtingu. Það var frábær þriðji leikhluti sem skóp sigur Íslands í leiknum, liðið komst loksins í góðan takt og gaf þá forystuna aldrei frá sér. Lokastaðan 84-103 fyrir Ísland. 

Það er að sjálfsögðu alltaf gott að vinna leik og betra að fara heim með einn sigur í farteskinu en öngvan. Eftir ævintýri með íslenska liðinu er næsta verkefni hjá Israel Martin að undirbúa Tindastólsliðið fyrir veturinn.

Heimild: Karfan.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir