Seiglusigur Stólastúlkna í slagveðursslag í Grindavík

Stólastúlkur fagna síðara marki sínu í Grindavík. SKJÁSKOT
Stólastúlkur fagna síðara marki sínu í Grindavík. SKJÁSKOT

Stólastúlkur sóttu sigur á Suðurnesið í kvöld þegar þeir sóttu lið Grindvíkinga heim. Lið Grindvíkinga var í sjöunda sæti Lengjudeildarinnar fyrir leikinn en Tindastóll í þriðja. Staðan á toppi deildarinnar er hrikalega jöfn og spennandi og ljóst að liðin mega lítið misstíga sig. Það gerðu Stólastúlkur að sjálfsögðu ekki og gerðu tvö mörk á lokakafla leiksins og útslitin því 0-2.

Aðstæður til tuðrusparks voru ekki upp á það besta í Grindavík í kvöld, rok og rigning og í raun aðdáunarvert hversu vel liði Tindastóls tókst að spila í síðari hálfleik undan vindinum. Leikurinn var fjörugur og liðin sóttu á víxl – sóknir gestanna þó alltaf hættulegri.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en það var Bryndís Rut, fyrirliði Tindastóls, sem braut ísínn á 74. mínútu. Murr vann þá hornspyrnu upp við hægra hornið og Hannah Cade tók hættulega spyrnu en Lauren í marki heimastúlkna blakaði boltanum út í teig. Þar var Krista fyrst á boltann og náði að skallann inn á hættusvæðið við markteiginn og eftir smá klafs féll boltinn fallega fyrir Bryndísi sem dúndtaði í markið. Uppleggið var svipað í seinna markinu sem kom á 83. mínútu en þá var það Hugrún sem vann hornspyrnu á sama stað. Aftur var það Hannah sem tók spyrnuna en Grindvíkingar hreinsuðu, Hannah fékk boltann á ný til móts við vítateigshornið og sendi gómsætan bolta inn í teiginn þar sem varnarmaður Grindvíkinga misreiknaði boltann. Áður en Lauren í markinu næði að gómann var Murr mætt í eyðuna og potaði boltanum framhjá markverðinum og setti boltann síðan í markið. Vel gert.

Grindvíkingar reyndu að svara fyrir sig en fengu engin færi hjá vörn Tindastóls sem stóð vaktina með glæsibrag. Ef eitthvað var þá voru það Stólastúlkur sem voru líklegri til að bæta við marki.

Lið Tindastóls kom sér upp að hlið FH sem er í efsta sætinu en Hafnfirðingar eiga leik inni. Liðin er bæði með 23 stig. HK á sömuleiðis leik inni en Kópavögsstúlkurnar eru með 21 stig.

Margar laskaðar og hálf meiddar

„Liðsheild, vinnusemin og gæði i föstum leikatriðum skópu þennan sigur,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann út í leikinn. „Spilamennskan var allt î lagi við erfiðar aðstæður. Skánaði mikið í seinni hálfleik.“

Hvert er uppleggið þegar spilað er við svona aðstæður? „Uppleggið var það sama og vanalega. Reyna að spila góðan bolta og síðan að vinna barráttuna inni á vellinum. Stelpurnar gerðu sitt besta og ég er mjög ánægður með það.“

Nú er hálfsmánaðar frí í Lengjudeildinni. Er það kærkomið? „Virkilega kærkomið frí þvî það eru margar laskaðar og hálf meiddar. Svo við notum fríið til að hlaða batteríin,“ sagði Donni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir