Sannfærandi sigur á Kórdrengjum á Blönduósvelli
Sameiginlegt lið Kormáks/Hvatar, sigraði Kórdrengi með sannfærandi hætti, 3-0, á Blönduósvelli síðastliðinn föstudag. Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, Kórdrengir stórhættulegir en heimamenn stóðu í þeim.
Miguel Martinez markmaður heimamanna var eins og stálveggur í markinu sama hvað Kórdrengir reyndu. Fyrsta mark heimamanna kom á 26. mínútu með marki Jóns Gylfa Jónssonar. Staðan í hálfleik 1-0.
Seinni hálfleikur fór vel af stað en það var loksins á 66. mínútu að heimamenn komust í 2-0 með marki Daniel Garceran Moreno eftir gott spil við Hilmar Kárason. Hilmar bætti svo við markareikning heimamanna með marki á 78. mínútu.
Með sigrinum komst liðið í þriðja sæti riðilsins með 16 stig eftir tíu leiki. Kórdrengirnir eru áfram á toppi riðilsins með 22 stig eftir ellefu leiki og ÍH er í öðru sæti með 17 stig eftir tíu leiki. Um næstu helgi spilar Kormákur/Hvöt við ÍH í Hafnarfirði og gæti leikurinn ráðið miklu um hvort liðið kemst í úrslitakeppni fjórðu deildar. Leikurinn hefst klukkan 16 á Ásvöllum í Hafnarfirði, laugardaginn 18. ágúst næstkomandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.