Pétur sýndi góða takta gegn Tékkum

Íslenska landsliðið í körfubolta. Pétur er lengst til vinstri í neðri röð, við hlið Loga Gunnars sem spilaði í gær síðasta landsleik sinn eftir hreint magnaðan 147 leikja landsliðsferil. MYND AF KKÍ.IS
Íslenska landsliðið í körfubolta. Pétur er lengst til vinstri í neðri röð, við hlið Loga Gunnars sem spilaði í gær síðasta landsleik sinn eftir hreint magnaðan 147 leikja landsliðsferil. MYND AF KKÍ.IS

Pétur Rúnar Birgisson, 22 ára leikmaður Tindastóls, lék sína fyrstu landsleiki nú um helgina þegar Ísland gerði sér lítið fyrir og lagði sterk landslið Finna og Tékka í frábærum og æsispennandi landsleikjum í Laugardalshöllinni. Pétur kom ekkert við sögu í fyrri leiknum gegn Finnum en hann fékk að láta til sín taka í naglbít gegn Tékkum í gær og stóð sig með mikilli prýði.

Pétur kom inn á undir lok fyrsta leikhluta, í stöðunni 14-13, og átti á þeim rúmlega tveggja mínútna kafla eina stoðsendingu og stolinn bolta og hefði átt aðra stoðsendingu ef Acoxinn hefði ekki klikkað á íleggju. Þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 19-14.

Leikirnir voru tveir af sex leikjum Íslands í undankeppni HM í körfubolta sem fram fer í Kína 2019 og því gríðarlega mikilvægir upp á stöðu Íslands í riðlinum og þar með möguleikum á að komast áfram í milliriðil. Fyrir leikinn hafði Ísland tapað fyrir Tékkum á útivelli og sömuleiðis lotið í parket gegn Búlgörum í grátlegum ósigri hér heima. Það var því að duga eða drepast og óhætt að segja að það hafi verið frábært að fylgjast með baráttuglöðum Íslendingum leggja þessa sterku andstæðinga að velli. Fyrri leikurinn fór 81-76 en sá síðari 76-75 en það var Martin Hermannsson sem fór fyrir liði Íslands og gerði 26 stig í báðum leikjunum.

Feykir óskar Pétri Rúnari til hamingju með áfangann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir