Pétur frábær í klikkuðum körfuboltaleik í Síkinu
Tindastóll og Keflavík mættust í stórskemmtilegum og undarlega sveiflukenndum leik í Síkinu í kvöld. Stólarnir spiluðu á löngum köflum hreint frábærlega en Keflvíkingar sýndu úr hverju þeir eru gerðir og náðu ótrúlegum köflum þar sem þeir átu upp forskot Stólanna á örskotsstundu. Leikmenn Tindastóls héldu þó út og fögnuðu góðum sigri að lokum í leik þar sem Pétur og Hester fóru á kostum. Lokatölur 101–93.
Bæði lið hófu leikinn vel en eftir tveggja mínútna leik skildu leiðir og Stólarnir völtuðu yfir gestina, bæði í sókn og vörn. Hester fór mikinn á þessum kafla og Stólarnir breyttu stöðunni úr 5-6 í 21-7. Hannes Ingi endaði síðan fyrsta leikhluta með sínum öðrum þristi og staðan 31–14. Það var sama hvaða Tindastólsmaður kom inn, allir voru sjóðheitir og ef sóknarleikurinn var ekki að skila mönnum körfum þá lögðu þeir enn harðar af sér í vörninni. Davenport, nýr kani Stólanna, var til dæmis ekki að setjann í sókninni en hann átti nokkrar sirkusvörslur á hinum endanum sem kveiktu vel í stúkunni. Þegar Stólarnir náðu 25 stiga forskoti, 45-20, virtist Herði Axel vera nóg boðið og hann setti niður tvo þrista í hvelli og var nánast eini Keflvíkingurinn með lífsmarki fram að hléi. Staðan 56–36 í hálfleik og sennilega hafa einhverjir reiknað með að þetta væri geim óver. Svo var aldeilis ekki.
Friðrik þjálfari gestanna hefur sennilega boðið upp á kraftmikinn kokteil í hléi því þegar Keflvíkingar mættu loks til leiks í þriðja leikhluta, þá voru þeir loksins tilbúnir til að skilja allt eftir á gólfinu. Það munaði 21 stigi þegar tvær mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta eftir körfur frá Pétri og Hester en næstu 13 stig voru Keflvíkinga og skyndilega var munurinn kominn niður í átta stig. Viðar svaraði með þristi en þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum setti Reggie Dupree niður tvö víti og munurinn fimm stig, 65-60. Pétur setti þá þrist, einn af fimm slíkum, og karfa frá Davenport sá til þess að munurinn fyrir fjórða leikhluta var átta stig. Staðan 71–63.
Það var ljóst að Stólarnir þurftu að finna svar við leik Keflvíkinga í fjórða leikhluta og sú varð raunin þó hjálpin hafi komið úr nokkuð óvæntri átt. Stólarnir gerðu nefnilega fjóra þrista í röð án þess að gestirnir næðu að svara; einn kom frá Pétri og þrír frá Davenport sem sannarlega fann fjölina sína á þessum kafla. Munurinn orðinn tuttugu stig og þegar Hannes Ingi setti niður sinn þriðja þrist, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum, var munurinn orðinn 24 stig. Staðan 91–67 og jafnvel svartsýnustu spekingar farnir að bæta tveimur stigum á töfluna hjá Stólunum. Nú hins vegar náðu Suðurnesjamenn upp sterkri vörn á ný og náðu að slá heimamenn út af laginu. Og ekki var verra fyrir þá að það var nánast sama hverju þeir köstuðu upp í loftið, flest féll með þeim og yfirleitt ofan í körfu Stólanna. Á rúmum þremur mínútum gerðu þeir 21 stig, þar af 19 stig í röð, og minnkuðu muninn enn á ný í fimm stig eftir mýmörg mistök heimamanna. Staðan 93–88 og eitt hundrað langar sekúndur til leiksloka. Nú þurftu Stólarnir að stíga upp á ný, búnir að missa Pétur af velli með fimm villur og Sigtryggur Arnar borgaralega dressaður, meiddur, á bekknum. Kapp er best með forsjá er orðtæki sem gleymdist að nefna við gestina á lokametrunum, því á ögurstundu fengu þeir dæmda á sig óíþróttamannslega villu hjá dómurum leiksins, sem sannarlega stóðu í ströngu í kvöld, og Stólarnir settu niður þrjú víti og náðu að klára leikinn af vítalínunni.
Allgjörlega geggjaður körfuboltaleikur og bauð upp á allan körfuboltaskalann. Pétur var magnaður í leiknum og mjatlaði látlaust inn stig og stoðsendingar. Hann endaði með 35 framlagspunkta eftir að hafa gert 26 stig, tekið sjö fráköst og átt níu stoðsendingar. Þá stal hann fjórum boltum. Hester var flottur með 31 stig og níu fráköst. Chris Davenport nældi í 13 flott stig, fimm fráköst og tvö varin skot en hann gerði gestunum oft erfitt fyrir í skotum sínum. Hannes var með 12 stig, allt þristar (4/6) og aðrir voru bari magnaðir þrátt fyrir að skora minna. Í liði gestanna var Hörður Axel langbestur með 27 stig og flest skoruð með Tindastólsmann límdan í andlitið á sér. Þá var Christian Dion Jones nokkuð öflugur þó Stólarnir hafi farið hálf illa með hann í fyrri hálfleik. Lið Tindastóls frákastaði talsvert betur en gestirnir (44/31), sömuleiðis var 3ja stiga nýting Stólanna betri (48%/29%) og þá var vítanýting heimamanna til fyrirmyndar eða 87%.
Stólarnir eru nú jafnir ÍR og KR í 2.-4. sæti Dominos-deildarinnar en Vesturbæingar eiga leik til góða. Haukar eru hinsvegar efstir. Næstkomandi sunnudag spilar Tindastóll í Þorlákshöfn en Þórsarar hafa verið að herða á sér að undanförnu og verða eflaust erfiðir viðureignar eins og oftast.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.