Pétur Birgis valinn í æfingahóp Íslands í körfunni
Það eru tveir mikilvægir leikir framundan hjá íslenska karlalandsliðinu í körfubolta en nú um næstu mánaðamót spilar Ísland síðustu leiki sína í undankeppni HM 2019 og verður leikið í Finnlandi og í Búlgaríu. Fimmtán manna æfingahópur var valinn fyrir skömmu en æfingar og undirbúningur íslenska liðsins hófst nú í vikunni. Einn leikmaður Tindastóls er í 15 manna hópnum en það er Pétur Rúnar Birgisson, leikstjórnandinn geðþekki.
Pétur fékk sénsinn í leikjum landsliðsins í vetur og lék vel þær mínútur sem hann fékk. Sigtryggur Arnar Björnsson var einnig valinn í hópinn en gaf ekki kost á sér vegna meiðsla.
Fyrri leikurinn verður í Búlgaríu 29. júní en sá síðari í Finnlandi 2. júlí og á hann er uppselt, 11 þúsund miðar seldir og þar af Íslendiingar með einhverja 100 miða! Leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á RÚV.
Þá skal þess getið að Skagfirðingurinn Bríet Lilja Sigurðardóttir var valin í U20 landslið Íslands sem tekur þátt í B-deild Evrópumótsins sem fram fer í Oradea í Rúmeníu dagana 7.-15. júlí. Bríet Lilja spilaði með liði Skallagríms í vetur í úrvalsdeild kvenna og fór með liðinu í úrslitakeppnina þar sem hún stóð fyrir sínu og vel það.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.