Pepsi Max deildin: „Við elskum að vera underdogs“

Stelpurnar spila fyrsta leikinn í Pepsi Max deildinni í kvöld. Allir á völlinn! MYND: ÓAB
Stelpurnar spila fyrsta leikinn í Pepsi Max deildinni í kvöld. Allir á völlinn! MYND: ÓAB

„Já, að sjálfsögðu! Þetta hefur verið okkar markmið til lengri tíma og nú rætist draumurinn,“ segir Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, þegar blaðamaður Feykis spyr hana hvort það sé komin spenna í hópinn hjá Stólastúlkum en liðið spilar fyrsta leikinn í Pepsi Max deildinni í kvöld, miðvikudaginn 5. maí, og hefst leikurinn kl. 18:00 á gervigrasinu á Króknum. Það er því full ástæða til að taka púlsinn á fyrirliðanum farsæla.

Hvernig leggst mótið í þig og ertu ánægð með undirbúning liðsins fyrir mótið? „Mótið leggst vel í mig, allir spá okkur neðst á töflunni sem er skiljanlegt fyrir nýliða eins og okkur en við elskum að vera underdogs eins og það er kallað svo þetta verður skemmtilegt season. Við höfum verið að lenda í smá meiðslabrasi í hópnum en það er allt að blessast þannig að vonandi erum við búin með þann pakka! Undirbúningurinn fyrir mótið hefur heilt yfir verið góður en við misstum af nokkrum æfingarleikjum sem hefði verið gott að spila en það var eins hjá öðrum liðum þannig að það verður áhugavert að sjá hvernig mótið byrjar.“

Nú unnuð þið ÞórKA í síðasta leik. Hvernig fannst þér frammistaðan og eru úrslitin að gefa liðinu eitthvað? „Heilt yfir var frammistaðan mjög góð. Varnarlega stóðum við okkur vel, auðvitað er alltaf eitthvað sem við getum bætt en heilt yfir vorum við þéttar og skipulagðar í okkar varnarleik sem skilaði sigri. Jákvætt fyrir hópinn að ná þessum leik rétt fyrir mót, gefur okkur aukið sjálfstraust sem veganesti.“

Hvernig leggst vorkuldinn í útlendingana okkar? „Murr elskar kuldann, Jackie þykist vera orðin íslensk og höndlar kuldann betur núna (sem er ekki sannfærandi þessa dagana) og Amber og Dom eru frekar kuldalegar komandi frá Kaliforníu.“

Áttu von á að liðið verði styrkt enn frekar á næstu dögum? „Eins og staðan er í dag þá hef ég ekkert verið að skipta mér að því þar sem ég hef verið að einbeita mér að sjálfri mér og liðinu sem er núna. En hinsvegar eru færri leikmenn komnir inn í hópinn núna en voru í fyrra sem er að mínu mati frekar furðulegt, breiddin þyrfti að vera meiri.“

Hvert er markmiðið í sumar? „Fyrsta markmið er að halda sæti í pepsi deildinni! Síðan á hópurinn eftir að setjast betur yfir þetta, tökum einn leik í einu.“

Hvernig var að taka þátt í umhverfisdögum Fisk Seafood og knattspyrnudeildar Tindastóls? „Virkilega skemmtilegt framtak, það var frábært að sjá hvað það mættu margir og stóðu sig vel. Mér þætti gaman að sjá þetta gert aftur í framtíðinni, gott að geta breytt óspennandi verki í jákvæða samvinnu og fá gleði á loft,“ segir Bryndís Rut að lokum.

Fyrsti leikur er semsagt í kvöld og nú er bara að styðja stelpurnar til góðra verka – þær eiga það sannarlega skilið. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir