Öruggur sigur Stólastúlkna í Síkinu
Lið Hamars úr Hveragerði kom í heimsókn á Krókinn í gær og lék gegn Stólastúlkum í 1. deild kvenna. Leikurinn var aldrei spennandi því lið Tindastóls náði góðri forystu strax í fyrsta leikhluta og þrátt fyrir smá hökt í öðrum leikhluta þá ógnuðu gestirnir aldrei forskoti heimastúlkna sem óx ásmegin í síðari hálfleik. Lokatölur voru 81-49.
Liðin höfðu tvívegis mæst í Hveragerði fyrir áramót og vann lið Tindastóls þá báða leikina. Það var því reiknað með sigri Stólastúlkna í gær og þær fóru vel af stað. Tess Williams gerði ellefu fyrstu stig Tindastóls og staðan var 11-2 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Þá kviknaði á Marín Lind og Evu Rún en á sama tíma var liði Hamars gjörsamlega fyrirmunað að skora þrátt fyrir ágæt færi. Vörn Tindastóls var afar áköf í fyrsta leikhluta og virtust gestirnir úr Hveragerði hálf ringlaðir. Tindastóll komst í 19-2 en síðustu fimm stig leikhlutans voru þó Hamars. Staðan 19-7.
Hvergerðingar komu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og leikurinn jafnaðist. Karen Lilja kom sterk inn og gerði sjö stig á skömmum tíma og staðan 30-15 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Þá gerðust þau undur að Tess klikkaði á nokkrum skotum í röð en aftur voru það Eva Rún og Marín Lind sem tóku upp skorþráðinn en staðan í hálfleik var 35-24.
Lið Tindastóls tók völdin á ný í þriðja leikhluta og eftir þrist frá Marín Lind var staðan orðin 50-29 og lítið um högg frá Hamarsstúlkum. Tess, sem spilaði rétt rúmar 20 mínútur, fór af velli upp úr miðjum þriðja leikhluta og kom ekki meira við sögu. Í hennar stað var það Eva Rún Dagsdóttir sem stjórnaði leik liðsins að mestu og hún tók leikinn yfir í fjórða leikhluta. Hraðinn á henni var slíkur með boltann að hún skaust framhjá tveimur, þremur varnarmönnum gestanna hvað eftir annað eins og að drekka vatn. Síðan fór hún að salla niður skotum og ef hún tapaði boltanum þá bara vann hún hann aftur. Frábær frammistaða. Lokatölur sem fyrr segir 81-49.
Tess var allt í öllu í byrjun leiks og hún endaði leikinn með 22 stig. Best í liði Tindastóls að þessu sinni var þó Eva Rún sem gerði 21 stig á 22 mínútum og þrátt fyrir að það sé frekar langt frá því að hún geti talist hávaxin þá hirti hún flest fráköst í Síkinu í gær, eða ellefu stykki og þar af fjögur sóknarfráköst. Marín Lind Ágústsdóttir var seig að venju með 18 stig og þrjár stoðsendingar og Karen Lilja Owolabi skilaði níu stigum. Vörn Tindastóls var fín í gær og gerði gestunum erfitt fyrir, enda töpuðu þær 19 boltum. Karen Lilja og Kristín Halla Eiríksdóttir tóku báðar sjö fráköst í leiknum og Kristín Halla spilaði vel þó skotin hafi klikkað að þessu sinni.
Það var kannski helst neikvætt í leik Tindastóls í gær hversu fáar Stólastúlkna skoruðu en Arnoldas notaði allan hópinn og engin af stúlkunum tólf spilaði undir sex mínútnum í leiknum. Sennilega var það þó bara ólukka að Rakel Rós, Kristín Halla og Erna Rut komu boltanum ekki í körfu gestanna því þær kunna nú eitt og annað fyrir sér en það reyndist hálfgert bras að koma boltanum oní undir körfu Hamars. Engu að síður flottur sigur og næst fá Stólastúlkur lið Grindavíkur í heimsókn þann 9. febrúar næstkomandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.