Öruggur sigur í æfingaleik gegn Hetti
Tindastóll og Höttur Egilsstöðum mættust í gær í síðasta æfingaleik Stólanna fyrir átökin í Dominos-deildinni í vetur. Stuðningsmenn fjölmenntu í Síkið og sáu kaflaskiptan leik liðanna en sigur Tindastóls var sannfærandi. Lokatölur 92-77.
Lið Tindastóls er mikið breytt og miðað við byrjunarliðið í gærkvöld var Pétur Birgis einn eftir af byrjunarliðinu frá því á síðasta tímabili. Ásamt Pétri voru það þeir Urald, Danero, Dino og Brynjar sem hófu leik og Brynjar var ekki lengi að láta vita af sér, setti niður þrist í einum grænum. Fyrsti leikhluti var reyndar frekar sultulegur en Stólarnir voru þó yfir að honum loknum, 18-17. Í öðrum leikhluta fóru heimamenn rösklega upp á tábergið og léku gestina grátt. Skellt var í lás í vörninni sem skilaði þægilegum körfum á hinum endanum og það var ágætur neisti í liðinu. Leikmenn Hattar voru heillum horfnir og þrátt fyrir kröftuga yfirhalningu frá Viðari þjálfara um miðjan leikhlutann gekk hvorki né rak í sókninni. Í hálfleik höfðu Stólarnir náð ríflega 20 stiga forystu, staðan 45-23.
Þrátt fyrir ágæta byrjun Hattar í þriðja leikhluta þá tóku Tindastólsmenn fljótlega yfirhöndina og héldu áfram að auka muninn sem var um 30 stig fyrir lokafjórðunginn. Þegar aðeins þrettán mínútur voru eftir af leiknum höfðu aðeins þrír gestanna skorað í leiknum en þeir lagfærðu þá tölfræði á síðustu mínútunum. Þá fengu óreyndari leikmenn Tindastóls að spreyta sig og þeim gekk ekki nægilega vel að klára sóknirnar en gestirnir fóru að hitta vel fyrir utan og söxuðu á forskotið sem var 15 stig þegar upp var staðið.
Það er ljóst að það mun taka smá tíma fyrir Stólana að læra að spila saman en leikmennirnir eru góðir þannig að það ætti varla að vefjast fyrir þeim. Brynjar Þór var atkvæðamestur Tindastólsmanna þrátt fyrir að vera lítið sem ekkert með í síðari hálfleik; hann gerði 19 stig og átti sex stoðsendingar.
Næst mæta Tindastólsmenn í DHL-höllina á sunnudag þar sem Íslandsmeistarar KR taka á móti bikarmeisturunum og síðan hefst alvaran á fimmtudag þegar Þór Þorlákshöfn kemur í heimsókn í Síkið í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar.
Stigahæstu men í gær:
Brynjar Þór 19 stig
Urald King 16 stig
Danero Thomas 12 stig
Stoðsendingar:
Brynjar 6 stoðsendingar
Dino Butorac 5 stoðsendingar
Pétur Rúnar 4 stoðsendingar
Danero Thomas 4 stoðsendingar
Fráköst:
Urald King 7 fráköst
Danero Thomas 5 fráköst
Helgi Rafn 4 fráköst
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.