Nýtt Íslandsmet hjá skagfirskum sundkappa

Ingibjörg t.v. ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur sem einnig keppir á mótinu. Mynd: Þórunn Snorradóttir.
Ingibjörg t.v. ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur sem einnig keppir á mótinu. Mynd: Þórunn Snorradóttir.

Ingibjörg stolt við íslenska fánann þegar hún var við æfingar í USA Olympic training center í Colorado springs nú í vor.Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sundkona setti í morgun nýtt Íslandsmet í 50 metra baksundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug sem nú fer fram í Búdapest í Ungverjalandi. Synti hún vegalengdina á 28,53 sekúndum og varð í 26. sæti í undanrásum. Þar með bætti hún Íslandsmet Eyglóar Óskar Gústafsdóttur sem var 28,61 sekúnda. Ingibjörg komst þó ekki áfram í undanúrslit en til þess þurfti að synda á 28,22 sekúndum.

Ingibjörg Kristín, sem er 24 ára gömul, er Hofsósingur í báðar ættir, dóttir hjónanna Þórunnar Snorradóttur og Jóns Ágústs Björnssonar sem eru bæði fædd þar og uppalin. Ingibjörg fæddist og ólst upp á Ísafirði þar sem hún byrjaði að æfa sund og æfði síðar með Sundfélagi Hafnarfjarðar sem hún keppir fyrir í dag. Undanfarin fjögur ár hefur hún stundað nám í Arizona State Uni­versity í Tem­pe í Banda­ríkj­un­um, ásamt því að æfa og synda með há­skólaliðinu þar. Þaðan útskrifaðist hún í vor með BA-gráðu í bus­iness comm­unicati­on. Hún tók þátt á Íslands­mót­inu í 50 metra laug í byrj­un apríl og náði lág­marki fyr­ir heims­meist­ara­mótið bæði í 50 metra skriðsundi og 50 metra baksundi. 

Feykir óskar Ingibjörgu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og óskar henni góðs gengis í skriðsundinu sem hún keppir í á laugardaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir