„Nú eru engar afsakanir,“ segir Helgi Rafn um leikinn í kvöld
Í kvöld fara fram tveir leikir í undanúrslitum Domino's deildar karla. Annars vegar tekur ÍR á móti okkar mönnum í Tindastóli í Hertz hellinum í Seljaskóla og hins vegar Haukar á móti -KR í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í Hafnarfirði. Ekki vantar spennuna í keppninni þar sem liðin hafa unnið sinn leikinn hvert en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitin.
Liðið var að lenda í Staðarskála er Feykir náði tali af fyrirliðanum, Helga Rafni Viggóssyni. Aðspurður um hvort þeir ætluðu í mjólkina var hann ekki alveg viss en frægt var á dögunum er Axel Kára var myndaður með mjólkurfernu og samloku eftir leik við Keflavík.
Helga leist alla vega vel á leikinn í kvöld á móti ÍR. „Þetta verður líf og fjör og nóg af fólki og við verum klárir. Allir heilir og klárir í verkefnið. Þetta verður bara geggjað fjör.“
Hann segir, aðspurður um síðasta leik, vonbrigði með að hafa ekki spilað betri vörn á heimavelli. „Við eigum ekki að fá á okkur 106 stig í úrslitakeppni. En svo fór sem fór og við tökumst á við þetta verkefni. Nú er leikur í dag og við hugsum um hann.“
Ryan Taylor, sem dæmdur var í þriggja leikja bann af aga og úrskurðanefnd fyrir brot sitt á Hlyni Bæringssyni í síðasta leik Stjörnunnar og ÍR í 8 liða úrslitum Dominos deildarinnar, er kominn með leikheimild á ný og má búast við því að hann láti að sér kveða í kvöld. En Helgi er ekki banginn frekar en fyrri daginn. „Þetta er bara körfubolti þannig að við bara tökum því þegar hann kemur. Nú eru engar afsakanir, þeir full mannaðir og við full mannaðir og bara líf og fjör,“ segir Helgi léttur í bragði og hvetur fólk til að fjölmenna á leikinn í kvöld.
„Ég vil sjá alla Skagfirðinga og aðra stuðningsmenn á stór Reykjavíkursvæðinu fylla Hellinn í kvöld og arga „Áfram Tindastóll“.
Rétt er að benda stuðningsfólki á að mæta snemma, þar sem búast má við miklum fjölda, ætli það sér að tryggja sér sæti í stúkunni.
Leikirnir hefjast báðir kl. 19:15, ÍR-Tindastóll í beinni á Stöð 2 Sport og Haukar-KR í beinni á netinu á YouTube-rás HaukaTV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.