Njarðvík hafði betur gegn Stólum í háspennuleik
Það var sannkallaður spennuleikur í Ljónagryfjunni í Njarðvík á mánudagskvöldið er Tindastóll mætti heimamönnum í næstsíðustu umferð Domino´s deildarinnar í körfubolta. Eftir hörkuspennandi og tvíframlengdan leik höfðu Njarðvíkingar betur með 103 stigum gegn 102. Njarðvíkingar hófu leikinn af meiri krafti en Stólarnir sem áttu erfitt með að finna leiðina að körfunni. Eftir tæpar sjö mínútur var staða orðin 16-6 fyrir heimamenn áður en Pétur Rúnar Birgisson náði að laga stöðuna með sniðskoti. Njarðvíkingar héldu áfram að salla niður körfum meðan lítið gekk hjá Stólum og staðan eftir fyrsta leikhluta 29-14.
Í öðrum leikhluta var annað uppi á teningnum hjá Stólum sem þéttu vörnina, stilltu miðið og náðu að saxa á forskot heimamanna svo einungis munaði einu stigi á liðunum í hálfleik 40-39 fyrir Njarðvík.
Nú tók við jafn kafli þar sem Stólarnir leiddu mest allan tímann en Njarðvíkingar hleyptu gestunum aldrei langt frá sér. Mestur var munurinn 5 stig í stöðunni 50:55 og leiddu Stólar eftir þriðja leikhluta 55:58.
Í upphafi fjórða leikhluta var engu líkara en gestirnir ætluðu að sigla í góða forustu og halda voninni um deildarmeistarasæti á lífi því eftir um tvær mínútur voru Stólarnir komnir með níu stiga forystu, 57:66. Heimamenn gáfust þó ekki upp og náðu að koma sér inn í leikin á ný og minnka muninn í 65:69 eftir sjö mínúta leik en þá tók Israel Martin leikhlé. Seinustu þrjár mínútur leikhlutans einkenndust af mikilli baráttu og spennu beggja liða. Njarðvíkingar gerðu fimm næstu stig meðan Stólar settu ekkert niður og staðan 70:72 þegar um tvær mínútur voru eftir. Hannes Ingi Másson, sem átti góðan leik, jók forskotið með þriggja stiga stökkskoti en heimamenn áttu næstu tvær þriggja stiga körfur og komust yfir 76:75. Þegar um 8 sekúndur voru eftir náði Maciek Stanislav Baginski að koma heimamönnum í vænlega stöðu með tveimur stigum úr víti 78:75. Eini séns Stólana var því að freista þess að skjóta fyrir utan þriggja stiga línunnar og koma leiknum í framlengingu. Þar var Helgi Freyr Margeirsson réttur maður á réttum stað þar sem skot hans langt utan af velli rataði rétta leið og jafnaði leikinn.
Í framlengingunni leiddu gestgjafar leikinn lengst af þó komust Stólar yfir tvisvar sinnum. Þegar um hálf mínúta var eftir komust heimamenn yfir er Maciek skoraði úr vítum 87:86 en Helgi Freyr funheitur setti niður þrist og kom Stólum í 87:89 þegar 20 sekúndur voru eftir. Spennan gríðarleg og allt í járnum þegar þjálfari Njarðvíkur tók leikhlé.
Rétt áður en dómarinn flautaði leikinn af mátti litlu muna að Kristinn Pálsson gerði út um leikinn þar sem hann skaut við þriggja stiga línuna en rétt tyllti stóru tánni á hana og fékk því aðeins tvö stig og önnur framlenging í spilunum.
Ef einhver fann ekki fyrir örari hjartslætti er fylgdist með annarri framlengingu þarf sá sami að láta kíkja á sig. Liði skiptust á að vera með forystu en þegar um mínúta var eftir var staðan 99:100 fyrir Stóla eftir að Terrell Vinson minkaði muninn fyrir heimamenn. Stólarnir leggja upp í sókn en Logi Gunnarsson stal boltanum eftir mislukkaða sendingu Antonio Hester sem endar með því að Terrell Vinson skorar og kemur heimamönnum yfir 101:100. Hester bætti stöðu Stólanna þegar um 25 sekúndur voru eftir 101:102 en Maciek gerði svo út um leikinn er hann skoraði úr tveimur vítum og kom heimamönnum í 103:102 og náðu Stólarnir ekki að svara fyrir sig en Helgi Freyr Margeirsson átti 3 stiga stökkskot en boltinn vildi ekki ofan í þrátt fyrir spennandi dans á körfuhringnum.
Langsótt von Stólanna um deildarmeistaratitilinn þetta tímabil varð því að engu þar sem sigur í tveimur síðustu leikjunum var það eina í stöðunni og treysta því að Haukar myndu tapa sínum. En framundan er úrslitakeppnin og má segja að þá hefjist nýtt mót.
Síðasti leikur Tindastóls í deildinni fer fram næsta fimmtudagskvöld á Sauðárkróki gegn Stjörnunni en eftir þá umferð kemur í ljós hvaða lið raðast saman í úrslitakeppninni.
Antonio Hester var stigahæstur Stólanna með 35 stig, Hannes Ingi 20, Pétur Rúnar 18, Helgi Freyr Margeirsson með 12 og Axel Kárason 11 stig. Aðrir skoruðu minna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.