Mikilvægur skyldusigur gegn Sindra
Í gær mættust lið Tindastóls og Sindra Hornafirði í 2. deild karla í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli. Bæði lið í botnbaráttu deildarinnar en Stólarnir þó talsvert betur settir með tólf stig fyrir leikinn, en lið Sindra með þrjú. Þegar upp var staðið unnu Stólarnir sanngjarnan sigur þó liðið hafi oft spilað betur en í gær. Lokatölur 2-0 og heimamenn komnir í þéttan pakka um miðja deild.
Líkt og í flestum heimaleikjum Stólanna í sumar þá var veður til knattspyrnuiðkunar til fyrirmyndar, stillt og hlýtt en það skiptust þó á skin og skúrir áhorfendum til nokkurra vandræða. Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði með liðunum. Augljóslega leikur sem bæði lið urðu að vinna og það virtist bitna á gæðum fótboltans. Fátt var um góð færi og sóknaruppbygging beggja liða fátækleg. Nokkrir leikmenn tóku út bann hjá Tindastóli og þó þeir sem inn komu hjá Stólunum hafi staðið fyrir sínu, þá vantaði talsvert upp á þolinmæði og vandvirkni í spil liðsins. Staðan 0-0 í hálfleik.
Í hálfleik skall á einhver klikkaðsta rigning sem undirritaður man eftir á vellinum og stóð eitthvað fram í síðari hálfleikinn. Stólunum virtist þykja rigningin góð því þeir fengu víti strax í byrjun hálfleiksins sem Kenny Hogg skilaði í netið. Staðan 1-0 og nú urðu gestirnir að sækja. Það hentaði Stólunum ágætlega og þeir vörðust vel og sóttu upp kantana. Kenny og Benni voru frískir sem fyrr og sérstaklega gekk gestunum illa að stöðva Benna nema með því að sparka hann niður. Stólarnir gerðu síðan út um leikinn á 70. mínútu þegar Kenny Hogg komst upp að endamörkum og sendi boltann fyrir og á fjærstöng lúrði Arnar Ólafsson og setti hann boltann af öryggi í markið. Leikmenn Sindra komust næst því að minnka muninn með góðu skoti úr aukaspyrnu sem sleykti þverslána hjá Brentton í marki Stólanna en allt kom fyrir ekki eins og einhver segir á Stöð2Sport.
Mikilvægur sigur Tindastóls og liðið lyfti sér úr tíunda sæti upp í það áttunda. Strákarnir eru með 15 stig en liðin í 5.-10. sæti eru með 14-16 stig þannig að deildin er geysilega jöfn.
Í gær vantaði Ragga Gunn og Bjarna Smára í liðið en þeir voru í banni eftir því sem Feykir kemst næst. Vegna meiðsla og banna taldi hópurinn aðeins fjórtán menn og í byrjunarliðinu var meðal annars Jón Gísli Eyland Gíslason, sem stóð vel fyrir sínu í stöðu hægri bakvarðar, en hann er aðeins 15 ára gamall og þó enginn nýgræðingur því hann lék einhverjar mínútur með Stólunum í fyrrasumar. Stephen Walmsley, spilandi þjálfari Stólanna, átti fínan leik, var út um allan völl og kom boltanum alltaf vel af stað með einföldu en skilvirku spili. Fannar var sterkur og Kenny og Benni líflegir og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Annars voru leikmenn almennt að skila sínu vel og voru augljóslega harðákveðnir í að vinna leikinn.
Það hefur svo sem áður komið fram að það er hrein unun að sjá knatttæknina hjá Benna og hann var með nokkrar geggjaðar einkasýningar í gær sem eiga eiginlega bara ekkert heima í íslenskum veruleika. Rosalega væri hann þó betri ef hann gæti mixað saman sólóum og sendingum í fyrstu – eða bara annarri –snertingu.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima á laugardaginn en þá kemur lið Fjarðabyggðar í heimsókn. Þeir Austfirðingar hafa aðeins verið að rétta úr kútnum í síðustu leikjum og eru nú með ellefu stig í ellefta sæti. Það er því enn og aftur sex stiga leikur á Sauðárkróksvelli. Nú væri hins vegar gaman að sjá fleiri áhorfendur mæta á völlinn en verið hafa á síðustu leikjum.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.