Mikilvægir leikir hjá meistaraflokkum Tindastóls í kvöld
Það verður fótbolti spilaður á Króknum í kvöld. Þá mætir lið Kára frá Akranesi í heimsókn á Sauðárkróksvöll og spilar við lið Tindastóls í 2. deild karla kl. 19:15. Á sama tíma verða Stólastúlkur í eldlínunni í 2. deild kvenna en þær spila utan héraðs – nánar tiltekið við lið Einherja á Vopnafirði en leikurinn hefst kl. 18:15.
Þetta verður þriðji síðasti leikur stúlknanna í 2. deildinni en þær spila annan útileik síðustu helgina í ágúst, við sameinað lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis sem töpuðu einmitt 1-9 fyrir liði Augnabliks sem berst um toppsætið í 2. deild við lið Tindastóls. Tindastóll og Augnablik mætast síðan í lokaumferðinni sem verður spiluð sunnudaginn 2. september og það gæti orðið hreinn úrslitaleikur um efsta sætið í deildinni.
Lið Tindastóls hefur nánast tryggt sér eitt af tveimur efstu sætum 2. deildar en Völsungur og Álftanes eiga vart möguleika á að spilla því að lið Tindastóls spili í 1. deild að ári. Til að gulltryggja það dugar Stólastúlkum sigur í einum af þeim þremur leikjum sem eftir eru.
Staða strákanna versnaði töluvert í síðustu umferð 2. deildar karla þegar liðið tapaði fyrir Víði Garði og liðin í næstu þremur sætum fyrir ofan Stólana sigruðu öll. Lið Tindastóls er með 11 stig í 11. sæti en Höttur er með 14 stig, Leiknir Fáskrúðsfirði 15 stig og Víðir 16. Nú eru sjö umferðir eftir í deildinni og ljóst að ef Stólarnir ætla að halda sæti sínu í deildinni þá þarf að fara að vinna nokkra leiki.
Andstæðingarnir í kvöld eru lið Kára frá Akranesi, eins konar B-lið ÍA, og þeir hafa verið að gera ágæta hluti í sumar. Kári er í 1.-3. sæti með 28 stig en toppbaráttan í 2. deild er nánast fáránlega jöfn en aðeins munar þremur stigum á liðinum í efsta sæti og liðinu í sjötta sæti deildarinnar. Markatala Kára er 35-33 en Stólanna 20-40 og því gæti nú allt bent til þess að mikið verði skorað í leiknum. Nú verða stuðningsmenn Stólanna að fjölmenna á völlinn og hjálpa strákunum að skora fleiri mörk en andstæðingarnir.
Allir á völlinn – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.