Fyrsti leikur Stóla í úrslitum Subway deildarinnar verður háður í kvöld

Baldur er klár með sína menn og væntir mikils af stuðningmönnum í úrslitakeppninni. Mynd: Hjalt Árna.
Baldur er klár með sína menn og væntir mikils af stuðningmönnum í úrslitakeppninni. Mynd: Hjalt Árna.

Fyrstu tveir leikir úrslitakeppni Subwaydeildar karla fara fram í kvöld er Tindastóll tekur á móti Keflavík í Síkinu á Sauðárkróki og Valur fær Stjörnuna í heimsókn í Origo-höllina á Hlíðarenda. Á morgun mætast svo Íslandsmeistarar Njarðvíkur og KR í Ljónagryfjunni í Njarðvík og Þór Þorlákshöfn og Grindavík í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn.

Tindastólsliðið hefur verið funheitt á lokaspretti deildarkeppninnar og náði að koma sér þægilega fyrir í fjórða sæti eftir sjö sigra í röð, sem gaf heimavallarrétt í úrslitakeppni og þýðir að Stólar hefja leik á heimavelli.

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari, segir liðið vera klárt og spenna í hópnum fyrir alvöru stríð. Áhorfendur söknuðu Sigurðar Þorsteinssonar í síðasta leik en Baldur segir hann kláran í slaginn.

Síðasti leikur gegn Keflavík var góður af hálfu Stóla, býstu við erfiðari leik í kvöld?

„Já, ég býst við því, þá vantaði hörkuleikmenn í þann leik. Rimman verður skemmtileg og krefjandi, með góðum stuðning í stúkunni eru allir vegir færir,“ segir Baldur.

Þú sagði í viðtali fyrr í vetur að það skipti máli að toppa á réttum tíma, er liðið að toppa á réttum tíma?

„Við náðum að enda deildarkeppnina vel og núna snýst þetta um að toppa. Vonandi náum við því. Ég vil sjá fullt Síki og brjálaða stemmningu,“ segir Baldur en hann er ánægður með framlag áhorfenda í síðustu leikjum sem gefa liðinu aukakraft svo vert er að hvetja alla til að mæta á leikina, hvort sem þeir fara fram á Króknum eða í Keflavík.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18.15 en húsið opnar klukkutíma fyrr og sem endranær verður hamborgarasalan á sínum stað. Miðaverð 2500 kr. en miðasala er í sjoppunni og á stubbur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir