Lukkan ekki í liði með Húnvetningum í Lengjubikarnum
Lið Kormáks/Hvatar var hársbreidd frá því að næla í fyrstu stigin í B deild karla, riðli C, í Lengjubikarnum í gær þegar Húnvetningar mættu liði ÍH í Skessunni í Hafnarfirði. Þeir voru 3-4 yfir þegar venjulegur leiktími var liðinn en fengu á sig tvö mörk í uppbótartíma. Lið Tindastóls spilaði síðan í Boganum á Akureyri í dag við lið Samherja og vann nauman sigur.
Það var nú fátt sem benti til markaveislu í byrjun leiks í Skessunni því aðeins var skorað eitt mark í fyrri hálfleik og það gerðu heimamenn í ÍH á 41. mínútu. Þorgrímur Goði jafnaði leikinn á 50. mínútu en á 59. mínútu náði ÍH aftur forystunni. Gestirnir settu Alfreð Má Hjaltalín inn á á 63. mínútu og örfáum mínútum síðar var hann búinn að skora tvö mörk. Hann jafnaði leikinn á 67. mínútu, Akil De Freitas kom gestunum yfir tveimur mínútum síðar og Alfreð bætti við fjórða marki Kormáks/Hvatar á 70. mínútu – semsagt þrjú mörk gestanna á fjórum mínútum og staðan 2-4!
Adam var ekki lengi í Paradís því heimamenn minnkuðu muninn í 3-4 á 84. mínútu, jöfnuðu leikinn á 92. mínútu og gerðu síðan sigurmarkið á 94. mínútu. Svekkjandi fyrir lið Húnvetninga en þeir eru þó í það minnsta búnir að reima á sig skotskóna og farnir að skora. Þeir eiga eftir að spila einn leik í Lengjubikarnum, gegn KFG í Garðabænum um næstu helgi.
Stólarnir mörðu Samherja
Það er orðið ansi langt síðan meistaraflokkur karla hjá Tindastóli skeiðaði út á knattspyrnuvöllinn en það hafðist loks í dag þegar spilað var við lið Samherja í Boganum á Akureyri. Aðeins eitt mark leit dagsins ljós og það gerði spænski varnarjaxlinn Domi, fékk boltann inn á vítateig eftir laglegt þríhyrningaspil með Adda og negldi boltanum í markið frá vinstra markteigshorni.
Donni þjálfari Tindastóls tjáði Feyki að Stólarnir hafi sýnt virkilega góðan leik á móti vel skipulögðu Samherja liði. „Okkar strákar spiluðu boltanum vel á milli sín og sköpuðu mörg færi að marki Samherja. Við létum boltann ganga vel á milli manna og færðum hann vel á milli kanta. Það var aðeins síðasta sendingin eða skotið sem vantaði uppá. Þar til á 77 mínútu þegar við skoruðum frábært mark eftir flott spil á vinstri kantinum. Domi þrumaði þá boltanum inn.
Varstu ánægður með frammistöðu liðsins? „Ég er virkilega ánægður með heildarframmistöðu liðsins í þessum leik. Menn voru aðeins þungir á sér eftir erfiða æfingaviku og fjögurra tíma snjómokstur í gær fyrir stelpurnar okkar. En strákarnir héldu boltanum mjög vel og sköpuðu mörg færi, héldu hreinu og skoruðu frábært mark. Þessi leikur gefur góð fyrirheit fyrir það sem koma skal,“ sagði Donni að lokum.
Jóhann Daði, Ísak, Emil og Bragi voru þeir varamenn sem komu inn á.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.