Liði Tindastóls spáð þriðja sæti í Lengjudeildinni

Donni þjálfari á von á erfiðum leik í kvöld gegn sterku liði Grindavíkur. MYND: JÓI SIGMARS
Donni þjálfari á von á erfiðum leik í kvöld gegn sterku liði Grindavíkur. MYND: JÓI SIGMARS

Lengjudeild kvenna í knattspyrnu hófst í gærkvöldi með tveimur leikjum og í kvöld spila Stólastúlkur fyrsta leik sinn. Þá fá þær lið Grindavíkur í heimsókn í vetrarríkið hér fyrir norðan. Í spá Fótbolta.net sem kynnt var fyrr í vikunni var liði Tindastóls spáð þriðja sætinu í deildinni en Grindvíkingum því sjötta en það eru þjálfarar, fyrirliðar og forráðamenn félaga deildarinnar sáu um að spá. Leikurinn í kvöld hefst kl. 18:30 og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að fjölmenna á völlinn.

Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Donna þjálfara nú í morgunsárið og var hann að sjálfsögðu fyrst spurður að því hvernig leikurinn legðist í hann. „Leikurinn leggst mjög vel í mig og staðan á hópnum er nokkuð góð. Það eru svona smá eymsli eftir bikarleikinn en annars eru flest allar í nokkuð góðum málum og klárar í svakalegan barráttuleik í dag.“

Hverju megum við búast við í kvöld? „Það má búast við mjög erfiðum leik í kvöld á móti vel þjálfuðu og sterku Grindavíkurliði. Þó það hafi ekki gengið neitt sérstaklega hjá þeim á undirbúningstímabilinu þá hafa þær bætt mikið við sig núna á lokametrunum og þær verða mjög góðar. Svo stelpurnar þurfa að hafa sig allar við og vera tilbúnar að berjast og spila góðan fótbolta til að eiga möguleika á sigri. En það ætlum við okkur auðvitað að gera.“

Liði Tindastóls er spáð 3. sætinu í spá Fótbolti.net. Hvernig líst þér á það? „Okkur er alveg sama um allar spár og þær hafa engin áhrif á okkur. Við einbeitum okkur bara að okkur sjálfum og ætlum okkur að fara í alla leiki og gera okkar besta og þá mun uppskeran verða góð í lokin. Við trúum á okkur og ætlum okkur stóra hluti. Liðin í deildinni eru mjög sterk og ég held að deildin verði mjög jöfn í ár. Það verða engir auðveldir leikir svo við verðum að vera með okkar lið klárt í að gefa allt í alla leiki sem við spilum.

Ná Stólastúlkur að styrkja hópinn á næstunni? „Við erum að skoða styrkingar klárlega. Hópurinn er frekar fámennur og svo eru stelpur sem hafa lent í meiðslum og veikindum auk þess sem ein fer erlendis í skóla í haust. Sú vinna er sem sagt á fullu en við viljum ekki bara fá hvern sem er í okkar hóp svo við erum að vanda valið,“ sagði Donni að lokum.

Anna Kristins til liðs við Stólastúlkur

Reyndar var lið Stólastúlkna styrkt nú á dögunum þegar Arna Kristinsdóttir kom að láni frá liði Þórs/KA og lék hún til dæmis með liði Tindastóls gegn HK í sigurleik í Mjólkurbikarnum um síðustu helgi. Arna er varnarjaxl, fædd árið 2000 og spilaði í fyrra átta leiki með liði Þórs/KA í Pepsi Max og Mjólkurbikarnum. Sumarið á undan var hún fastamaður í liði Hamranna.

Þess má geta að í spá Fótbolti.net þá var liði FH spáð efsta sæti og Víkingum 2. sæti. Bæði liðin spiluðu í gær og unnu sína leiki; FH vann granna sína í Haukum 0-4 en lið Víkings marði Augnablik, 3-2, með sigurmarki í uppbótartíma. Kópavogsstúlkunum var spáð tíunda og neðsta sæti sem bendir til þess að allt getur gerst í Lengjudeildinni og deildin sennilega jafnari en nokkru sinni fyrr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir