Lið Ýmis hafði betur eftir vítaspyrnukeppni

Körfuboltakappar Tindastóls létu kuldabola ekki hindra sig í að styðja við bak félaga sinna í fótboltanum. SKJÁSKOT ÚR FB-MYNDBANDI STEFÁNS VAGNS
Körfuboltakappar Tindastóls létu kuldabola ekki hindra sig í að styðja við bak félaga sinna í fótboltanum. SKJÁSKOT ÚR FB-MYNDBANDI STEFÁNS VAGNS

Það var spilaður fótbolti á Króknum í gær þrátt fyrir kuldabola og norðanderring. Lið Tindastóls og Ýmis mættust þá á gervigrasinu í úrslitakeppni C-deildar Lengjubikarsins. Þrátt fyrir slatta af tækifærum tókst liðunum ekki að koma boltanum í mörkin tvö í venjulegum leiktíma og þurfti þá að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar höfðu gestirnir úr Kópavogi betur og sigruðu 2-4.

Lið Ýmis spilar í 4. deildinni í sumar líkt og lið Tindastóls en Ýmir er einskonar B-lið HK og því engir aukvisar þar á ferð. Feykir spurði Donna þjálfara um hans skoðun á leiknum. „Þetta var ansi jafn leikur gegn sterku liði Ýmis. Bæði lið fengu fín færi þó þeirra færi hafi jafnvel verið ívið betri ef eitthvað. Við getum þakkað Antoni markmanni fyrir að þetta fór í vítakeppni því hann átti margar frábærar vörslur i leiknum. Það er alltaf leiðinlegt að tapa og þá sérstaklega í vítakeppni. Okkar menn lögðu allt í þetta en það vantaði aðeins upp á sem mun smella á réttum tíma. Ég vil þakka stuðningssveitinni alveg sérstaklega fyrir að mæta og styðja okkur, við kunnum hrikalega vel að meta það.“

Fótboltakappar Tindastóls hafa verið duglegir að mæta á leiki Tindastóls í körfunni og verið öflugir í sveit Grettismanna. Körfuboltakapparnir hafa kunnað vel að meta þetta og mættu á grasið til að styðja sparktæknimennina. Enda eins og segir í laginu góða; „baráttan um grasið eða baráttan um Síkið ... þetta er fyrir Tindastól!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir