Lið Njarðvíkur lagði Stólastúlkur
Kvennalið Tindastóls spilaði við lið Njarðvíkur fyrir sunnan í gær. Þetta var fjórði leikur Stólastúlkna í 1. deildinni en síðast lögðu þær ÍR í Síkinu. Þær byrjuðu leikinn vel í gær en heimastúlkur náðu yfirhöndinni fljótlega og náðu síðan upp góðu forskoti í þriðja leikhluta. Það náðu stelpurnar ekki að brúa og lokatölur 88-70.
Því miður vill það bregða við að enga tölfræði sé að hafa úr leikjum í 1. deild kvenna en samkvæmt frétt á Karfan.is þá byrjuðu Stólastúlkur betur en Njarðvíkurliðið var ekki lengi að koma sér inn í leikinn og taka forystu. Staðan eftir fyrsta leikhluta 24 – 21. og sjö heimastúlkur voru þegar komnar á blað en aðeins þrjár í liði Tindastóls. Heimastúlkur byrjuðu annan leikhluta vel og komust mest níu stigum yfir en staðan í hálfleik var 43 – 36.
Lið Njarðvíkur kom svo geysi grimmt til leiks í síðari hálfleik og náðu til að mynda 10-0 kafla þannig að lið Tindastóls átti lítinn séns eftir það. Stelpurnar gáfust þó ekki upp og gerðu atlögu að forystu heimastúlkna í fjórða leikhluta en það dugði ekki til og Njarðvík vann góðan sigur.
Í viðtali við þjálfar Tindastóls, Arnoldas Kuncaitis, þá fannst honum munurinn á liðunum einna helst vera meiri ákveðni í liði Njarðvíkur og að þær hafi verið líkamlega sterkari. Byrjunin hjá Stólastúlkum hafi verið góð en það hafi skort á skynsemina þegar leið á leikinn og þá sérstaklega í þriðja leikhluta. Lið Njarðvíkur hirti miklu fleiri fráköst í leiknum en lið Tindastóls og það gefur sjaldnast góða raun.
Næsti leikur Tindastóls er 13. nóvember en þá spila stelpurnar við lið Þórs á Akureyri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.