Lið Kormáks/Hvatar vann öruggan sigur á ókátum Káramönnum

Liðsmenn Kormáks/Hvatar fagna fyrsta marki Hilmars í dag sem kom á 44. mínútu. MYND: ÓAB
Liðsmenn Kormáks/Hvatar fagna fyrsta marki Hilmars í dag sem kom á 44. mínútu. MYND: ÓAB

Lið Kormáks/Hvatar tók á móti Skagamönnum í liði Kára á Sauðárkróksvelli í dag í 3. deild karla í knattspyrnu. Liðin voru bæði í efri hluta deildarinnar fyrir leik en það varð fljótt ljóst að Skagamennirnir voru eitthvað pirraðir og voru farnir að segja dómara og aðstoðarmönnum hans til strax í byrjun. Það endaði með því að þeir bæði töpuðu leiknum og hausnum en lið Hínvetninga sýndi og sannaði að það á góða möguleika á að koma á óvart í 3. deildinni í sumar. Lokatölur 3-0 og úrslitin í heildina sanngjörn.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en þegar á leið fyrri hálfleikinn þá var Goran Potkozarac farinn á toga í flesta spotta í leik Kormáks/Hvatar og í raun mjög gaman að sjá lipra takta frá honum og Ante Maric á miðjunni. Húnvetningar eru með sex erlenda leikmenn í sínum röðum og flestir hafa þeir spilað áður hér á landi. Goran til dæmis með Ægi 2019 og 2020 og Ante með Reyni Sandgerði 2020. Sem fyrr segir þá fór dómgæslan strax í taugar gestanna sem minntu helst á 2. flokks lið úr höfuðborginni sem mættu jafnan hér áður norður í land fullviss um það að dómararnir væru heimamenn, hlutdrægir og eitthvað þaðan af verra. Það sem var þó skondið í dag var að dómgæslan var hreint ágæt og rétt á lokakafla leiksins sem dómarinn missti loks þolinmæðina – og engin furða.

Fyrsta mark leiksins kom skömmu fyrir hlé en þá náði markahrókurinn Hilmar Kára að koma sínum mönnum yfir í kjölfarið á hornspyrnu. Lið Kára hóf síðari hálfleikinn ágætlega en fengu fá færi þrátt fyrir nokkra pressu. Það var spilað fast og eitthvað um pústra og ekki minnkaði ákafinn og lætin þegar á leið. Nikulás Ísar Bjarnason fékk að líta sitt annað gula spjald á 68. mínútu og Skagamennirnir orðnir einum færri. Ingibergur Kort Sigurðsson tvöfaldaði forystu Kormáks/Hvatar með snyrtilegri afgreiðslu fimm mínútum síðar eftir laglega sókn. Enn fækkaði í liði Kára á 79. mínútu þegar Hafþór Pétursson leit sitt annað gula spjald. Í raun hefði ekki verið hægt að segja mikið við því þó 2-3 til viðbótar úr gestaliðinu hefðu fengið að fara í sturtu snemma eftir kjafthátt og rifrildi við dómara og aðstoðardómara. Öll þessi læti voru að sjálfsögðu vatn á myllu Kormáks/Hvatar þar sem menn virtust hoknir af reynslu miðað við Kárana.

Þriðja mark heimamanna kom á 86. mínútu þegar Hilmar Kára fékk boltann í góðu færi við vítateigslínuna og setti hann efst í hornið, óverjandi fyrir Dino Hodzic í marki Kára.

Að loknum þremur umferðum er lið Kormáks/Hvatar í öðru sæti 3. deildar. Það er auðvitað of snemmt að segja til um gengi liðsins í sumar en miðað við frammistöðuna í dag þurfa þeir engu að kvíða. Miðjan er vel spilandi og vinnusöm og vörnin átti ekki í teljandi vandræðum í dag. Og ekki er annað að sjá en að það sé fullt af mörkum í liðinu.

Þetta verður spennandi sumar fyrir Húnvetninga og nú er bara að búa til góða stemningu í kringum leiki liðsins. Það má draga nokkur stig í hús með góðri stemningu. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir