Lið Afríku átti ekki séns gegn Stólunum

Jónas Aron Ólafsson var með tvö mörk í dag. MYND: ÓAB
Jónas Aron Ólafsson var með tvö mörk í dag. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn heimsóttu Afríku í dag á OnePlus völlinn en þeir Afríkumenn hafa lengi baslað í 4. deildinni. Þeir náðu að halda aftur af Stólunum fyrsta hálftímann en staðan var 0-2 í hálfleik. Í síðari hálfleik opnuðust hins vegar flóðgáttirnar og gestirnir bættu við tíu mörkum. Donni þjálfari var hæstánægður með framlag Spánverjans Basi sem leikur í fremstu víglínu en kappinn gerði fimm mörk og lagði upp þrjú til viðbótar. Lokatölur semsagt 0-12 og góður sigur staðreynd.

Basi gerði fyrsta markið á 33. mínútu og Jónas Aron bætti marki við á 42. mínútu. Stólarnir gerðu síðan þrjú mörk á þriggja mínútna kafla snemma í síðari hálfleik; fyrst bætti Basi við marki á 56. mínútu og síðan gerði Jóhann Daði tvö mörk, á 57. mínútu og þeirri 58. Þá þótti rétt að kæla hann niður svo honum var skipt út af. Basi gerði þriðja markið sitt á 65. mínútu og það fjórða á 72. mínútu og staðan orðin 0-7. Hann gerði fimmta mark sitt á 79. mínútu en síðan gerði Benedikt Gröndal níunda mark Stólanna tveimur mínútum síðar, Jónas Aron sitt annað mark mínútu eftir það og Domi skoraði ellefta mark Stólanna á 84. mínútu. Það var síðan Svend Emil sem kórónaði 0-12 sigur Tindastóls með marki á fyrstu mínútu í uppbótartíma.

„Við vorum töluvert sterkara liðið frá fyrstu mínútu og stjórnuðum leiknum allan tímann,“ sagði Donni þjálfari í samtali við Feyki að leik loknum. „Við spiluðum flottan fótbolta og mörkin voru frábær. Virkilega sterkt að halda áfram allan leikinn og við hefðum hæglega getað gert þó nokkuð fleiri mörk. En liðið spilaði mjög vel og við erum spenntir fyrir næsta verkefni,“ sagði þjálfarinn hæstánægður með suðurferðina.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Úlfunum hér heima næstkomandi laugardag og hefst leikurinn kl. 14:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir