Lengi lifir í gömlum glæðum
Það var hart barist þegar KR og Tindastóll mættust í DHL-höllinni í kvöld. Stólarnir voru eina taplausa liðið í Dominos-deildinni en Íslandsmeistararnir komu ákveðnir til leiks og ætluðu augljóslega ekki að láta Stólana komast upp með einhverja sirkustakta í sínu húsi. Það reyndist Tindastólsmönnum þungt í skauti að Urald King og Viðar voru snöggir að koma sér í villuvandræði. Ekki hjálpaði til að hinn háaldraði Jón Arnór Stefánsson gaf árunum og slitnum löppum langt nef og hreinlega vann leikinn fyrir Vesturbæinga. Lokatölur voru 93-86 eftir spennandi lokamínútur.
Leikurinn fór skarplega af stað og skiptust liðin á um að hafa forystuna. Fyrstu stigin gerði Urald og var þar að sjálfsögðu um hollíhú körfu að ræða. Eftir þetta voru Pétur og Brynjar mesta ógnin í sókn Stólanna en KR-ingar hófu strax að spila ógnarsterka vörn á Urald King. Heimamenn voru yfir, 22-20, eftir fyrsta leikhluta og þeir hófu annan leikhluta vel, komust í 29-22, en þá tók Pétur sig til og gerði átta stig í röð og kom Stólunum yfir, 29-30, og næstu mínútur var jafnræði með liðunum. Þristur frá Pétri og íleggja frá Urald kom Stólunum þremur stigum yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru til leikhlés. Þá tók Ingi Þór, þjálfari KR, leikhlé og náði heldur betur að rusla sínum mönnum í gang því lið KR gerði 11 stig fram að hléi á meðan Stólarnir voru í tómu basli og gerðu ekki stig. Staðan 48-40 í hléi og ljóst að eitthvað þurfti að breytast hjá Tindastólsliðinu sem var að láta heimamenn ýta sér út úr stöðum og hirða hvert sóknarfrákastið eftir annað.
Byrjunin á síðari hálfleik var hins vegar grátleg því eftir tvær mínútur hafði Urald King fengið dæmdar á sig tvær sóknarvillur og var þá kominn með fjórar villur. Honum var því kippt á bekkinn og KR yfir, 53-42. Inn kom Helgi Viggós og hann var ólseigur eins og ávallt þegar í harðbakkann slær. Þrátt fyrir talsverða stöðuyfirburði í teignum tókst KR-ingum ekki að keyra yfir Stólana sem náðu með harðfylgi að minnka muninn. Danero og Helgi gerðu nokkrar góðar körfur en munurinn á liðunum var engu að síður yfirleitt í kringum tíu stigin. Jón Arnór reyndist KR-ingum dýrmætur síðustu andartökin í þriðja leikhluta þegar Stólarnir náðu upp góðri baráttu og gerðu ágætar körfur, þá fiskaði sá gamli villur, en alls fékk hann tíu villur dæmdar á Stólana. Karfa frá Pétri minnkaði muninn í átta stig fyrir lokaátökin. Staðan 71-63.
Julian Boyd, sem átti mjög góðan leik í kvöld, gerði fyrstu stig fjórða leikhluta en þristur frá Danero og tvö stig frá Helga Rafni, kom muninum í fimm stig og skyndilega var leikurinn orðinn spennandi. Jón Arnór færði sínum mönnum smá olnbogarými og þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir setti hann niður þrist og munurinn aftur orðinn tíu stig, staðan 83-73. Næstu mínútur skiptust liðin á um að skora en tvær körfur frá Viðari og Urald komu muninum í sjö stig, 89-82, þegar tvær mínútur voru eftir. Nú virtist sem taugar heimamanna væru að bresta því KR-ingar gerðu sig seka um slæm mistök hvað eftir annað; þeir misstu boltann og brutu síðan á Stólunum, stoppuðu þannig klukkuna og gáfu Stólunum færi á að nálgast. Urald minnkaði muninn í fimm stig en vendipunkturinn að þessu sinni voru tvö víti sem fóru forgörðum hjá Pétri þegar rúm mínúta var eftir af leiknum – þar hefði munurinn getað farið niður í þrjú stig og þá hefði suðan komið rækilega upp í Vesturbænum. En aldrei þessu vant klikkaði kappinn en engu að síður náðu Stólarnir muninum niður í þrjú stig með körfu frá Urald en Jón Arnór svaraði að bragði og þar með gufuðu vonir Tindastóls um að næla í sjaldgæfan sigur í DHL-höllina upp.
Sem fyrr segir átti Jón Arnór geggjaðan leik þrátt fyrir vel auglýsta elli og lemstraðan skrokk. Hann gerði 29 stig, tók sjö fráköst, fiskaði tíu villur og var hreinlega til vandræða fyrir Stólana út um allan völl. Á meðan hann var inn á vann KR leikinn með 19 stigum. Þá var Julian Boyd sterkur í kvöld með 22 stig og 17 fráköst, þar af sjö sóknarfráköst. Aðrir í byrjunarliði KR voru að spila vel og skiluðu góðu framlagi.
Í liði Tindastóls var Pétur stigahæstur með 21 stig, Brynjar Þór var með 19, Danero 17 og Urald King 16 og 12 fráköst en hann spilaði aðeins 25 mínútur vegna villuvandræða. Þá skilaði Helgi Viggós sterkum 10 stigum í kvöld. Þrátt fyrir að lið Tindastóls hafi unnið stórsigur á liði KR í leik meistaranna fyrr í haust, þá var klárt mál að strákarnir vanmátu ekki KR – það er einfaldlega ekki hægt. Heimamenn voru hins vegar baráttuglaðari og ákveðnari í sínum aðgerðum, bæði í vörn og sókn, og það skilaði þeim sigri í kvöld. Það var í raun ekki fyrr en lið Tindastóls var komið með bakið upp að vegg að strákarnir stigu upp en það dugði ekki til að þessu sinni – Jón Arnór þvældist fyrir.
Tölfræði leiks af vef KKÍ >
Næsti leikur verður í Síkinu næstkomandi fimmtudag en þá koma Sigtryggur Arnar og félagar úr Grindavík í heimsókn. Það verður síðasti heimaleikur Urald King á árinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.