Leiknum gegn KR frestað vegna Covid-smita í liði Tindastóls

Hin þreytandi kórónaveira hefur aftur skotið upp kollinum í leikmannahópi Subway-deildarliðs Tindastóls og í tilkynningu á Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls er sagt frá því að tveir leikmenn liðsins hafi greinst með Covid. Leikmennirnir tveir eru að sjálfsögðu komnir í einangrun og afgangurinn af liðinu í sóttkví. Þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér að leiknum gegn KR, sem fram átti að fara í Síkinu annað kvöld, hefur verið frestað.

Kórónuveiran hefur sett talsvert strik í keppnishald í Subway-deildinni. Þremur leikjum Tindastóls var frestað í kringum áramótin en liðið náði að spila tvo leiki í síðustu viku og er á pari við flest lið deildarinnar hvað spilaða leiki varðar. Tindastóll er í sjötta sæti með 14 stig eftir 12 leiki en lið Vesturbæinga hefur aðeins spilað tíu leiki og er í áttunda sæti með 10 stig. Það er því næsta víst að boðið hefði verið upp á hörkuleik í Síkinu annað kvöld.

Samkomutakmarkanir hefðu reyndar haft það í för með sér að leikurinn hefði farið fram fyrir tómum Síkispöllum þar sem áhorfendur mega ekki mæta á leiki miðað við gildandi reglur. Kannski verður búið að breyta reglunum þegar KR-ingar mega loks heimsækja Síkið.

Næsti leikur strákanna á síðan að fara fram 27. janúar þegar þeir heimsækja Blikana í Kópavoginn ef aðstæður leyfa. Stelpurnar hafa ekki spilað leik í 1. deildinni frá því 18. desember en þær eiga loks að spila gegn liði ÍR í kvöld í Breiðholtinu eftir mánaðarpásu. Þær eiga síðan heimaleik gegn KR á laugardaginn kl. 18:00 og verður það fyrsti leikur ársins í Síkinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir