Landsliðið í júdó æfir á Sauðárkróki
Kvennalandsliðið í júdó ætlar að dvelja saman á Sauðárkróki um helgina og æfa þar undir stjórn landsliðsþjálfara kvenna í íþróttinni, Önnu Soffíu Víkingsdóttur.
Þrátt fyrir að hér sé um landsliðið að ræða eru æfingabúðirnar einnig opnar öllum stelpum, 15 ára og eldri, sem áhuga hafa á að æfa júdó. Engin beltaskilyrði eru sett fyrir þátttöku og yngri iðkendur sem hafa nægilega reynslu geta fengið undanþágu frá aldurstakmarki.
Á morgun, laugardag, er öllum boðið að fylgjast með opinni æfingu sem fram fer klukkan 15 til 17.
„Það er heiður fyrir Júdódeild Tindastóls að Sauðárkrókur hafi orðið fyrir valinu sem æfingastaður og eru allir hvattir til að leggja leið sína í íþróttahúsið á laugardagseftirmiðdaginn og fylgjast með landsliðinu æfa,“ segir á heimasíðu Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.