Lamanna með þrjú þegar Stólarnir tryggðu sætið í 2. deildinni
Það var áþreifanleg spenna í 2. deildinni í dag þegar síðasta umferð sumarsins var leikin. Á flestum völlum skiptu úrslitin máli varðandi það hvaða lið færu upp og hvaða lið fylgdi liði Hugins niður í 3. deild. Á Sauðárkróksvelli mættust lið Tindastóls og Vösungs og þar gátu Stólarnir fallið og Völsungur farið upp um deild en það voru heimamenn sem voru sterkari í fjörugum og spennandi leik sem endaði 3-2. Þegar úrslit dagsins lágu ljós fyrir kom í ljós að lið Tindastóls endaði í áttunda sæti en fyrir síðustu umferðina hafði liðið aldrei verið ofar en í 10. sæti í sumar.
Stólarnir fóru vel af stað og voru sterkara liðið framan af leik. Eitthvað fór mótlætið í taugar Húsvíkinga sem fengu tvö gul spjöld með tilheyrandi háðsglósum stuðningsmanna Tindastóls til Völsunga og dómara um að skrá þetta nú vel hjá sér. Á 21. mínútu kom fyrsta mark leiksins en þá fékk Stefan Lamanna frábæra stungu inn fyrir vörn gestanna og hann stakk sér inn á vítateig Völsunga fór þar fram hjá markmanninum og skoraði af öryggi. Húsvíkiinga settu aðeins meira vítamín í sóknarleikinn eftir þetta en þeim gekk illa að skapa sér færi.
Staðan var 1-0 í hálfleik og þá varð ljóst að ekkert annað en sigur kom til greina hjá liði Tindastóls því á þessum tíma voru öll þrjú liðin í botnbaráttunni að vinna leiki sína. Og staðan í toppbaráttunni var þannig að hefðu Völsungar verið yfir í leiknum þá hefðu þeir verið á leiðinni upp í 1. deild.
Eflaust vissu gestirnir þetta þegar síðari hálfleikur hófst því þeir pressuðu stíft að marki Tindastóls, fengu nokkrar hornspyrnur og aukaspyrnur, en vörn Tindastóls hélt (björguðu tvisvar á línu) og Stólarnir náðu nokkrum efnilegum skyndisóknum. Á 59. mínútu slapp Lamanna enn inn fyrir vörn Völsungs og Sigvaldi Einarsson greip til þess ráðs að toga Kanada-manninn niður og dómarinn átti engan annan kost í stöðunni en að sýna honum rauða spjaldið. Áhorfendur veltu fyrir sér hvort honum yrði ekki hleypt aftur inn á á 91. mínútu til að bæta upp fyrir þennan sem var ranglega rekinn út af gegn liði Hugins í ágúst.
Völsungur jafnar einum færri
Stuðningsmenn Stólanna voru kátir með rauða spjaldið en ýmsir hefðu þó frekar kosið að fá markið. Ekki síst þegar Konni dúndraði aukaspyrnunni yfir. Þrátt fyrir það að vera einum færri lögðu gestirnir ekki árar í bát og héldu áfram að pressa. Þeir uppskáru enn nokkrar hornspyrnur og upp úr einni slíkri jafnaði Elvar Baldvinsson metin. Stuðningsmenn Stólanna voru nú sárgramir en það var fátt sem fékk stöðvað Lamanna í þessum leik. Á fjögurra mínútna kafla nýtti hann enn hraða sinn og leikni og skoraði tvö mörk á 73. og 77. mínútu eftir góðan undirbúning félaga sinna. Staðan orðin 3-1 og nú voru leikmenn Völsungs látnir vita um að þeir ættu ekki lengur möguleika á að komast upp miðað við stöðuna í öðrum leikjum. Þeir létu þessi skilaboð sem vind um eyru þjóta og minnkuðu muninn í eitt mark þegar Sæþór Olgeirsson gerði laglegt mark eftir ansi þreytulegan varnarleik Tindastóls.
Húsvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en höfðu ekki erindi sem erfiði. Stólarnir léku skynsamlega síðustu mínúturnar og voru í raun nær því að skapa sér góð færi en gestirnir. Lokatölur því 3-2 og leikmenn og stuðningsmenn Tindastóls kampakátir með að hafa haldið sæti sínu í 2. deild eftir strembið sumar þar sem liðið var lengstum í fallsæti.
Allir leikmenn stóðu fyrir sínu í dag og í raun lék lið Tindastóls einn sinn besta leik í sumar. Lamanna var sem fyrr segir óstöðvandi, gerði þrjú mörk og leikmaður Völsungs fékk rautt fyrir að stöðva hann ólöglega. Í vörninni voru Fannar og Nile Walwyn traustir og fyrir framan þá notuðu Konni og Jón Gísli boltann vel og áttu nokkrar eðalsendingar. Það var ekki hægt að sjá hvort liðið var að berjast um að komast upp um deild og í raun magnað afrek hjá liði gestanna að vera í þeirri stöðu.
Afturelding og Grótta upp í Inkasso
Sem fyrr segir færði sigurinn í dag lið Tindastóls upp um tvö sæti í 2. deild. Stólarnir enduðu í áttunda sæti, komust upp fyrir lið Hattar Egilsstöðum sem féll eftir tap gegn toppliði Aftureldingar, og lið Víðis Garði sem tapaði fyrir Leikni Fáskrúðsfirði 3-0 en með sigrinum komst lið Leiknis upp fyrir Hött. Toppliðin þrjú unnu öll sína leiki í dag og það voru því Afturelding og Grótta sem fóru upp um deild en lið Vestra Ísafirði sat eftir með sárt ennið.
Liði Tindastóls var af spekingum spáð falli í sumar, var langneðst í spánni, en þrátt fyrir snarbratta og erfiða byrjun á mótinu náðist að þétta varnarleikinn og búa til liðsanda sem skilaði liðinu áframhaldandi veru í 2. deildinni. Þetta er ekki síst ánægjulegt fyrir það að liðið er að mestu byggt upp á heimamönnum. Nú er bara að vona að Stólarnir nái að þétta raðirnar enn frekar fyrir komandi tímabil og að nýr gervigrasvöllur færi okkar fólk enn framar á fótboltasviðinu.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.