Krakkar af Norðurlandi vestra stóðu sig afar vel á MÍ um helgina
Um síðustu helgi fór fram Meistaramót Íslands 11-14 ára innanhúss í Laugardalshöll. Um 250 krakkar voru skráðir til leiks frá þrettán félögum víðsvegar af landinu og þ.á.m. margir af Norðurlandi vestra. Keppt var í sjö greinum í fjórum mismunandi aldursflokkum í bæði pilta og stúlkna flokki og fór svo að HSK/Selfoss urðu Íslandsmeistarar félagsliða á mótinu með 543,5 stig og sigruðu þau stigakeppnina í þremur aldursflokkum og hlutu alls 12 gull, 12 silfur og 12 bronsverðlaun. ÍR-ingar voru í öðru sæti með 518,5 stig og Breiðablik í því þriðja með 417 stig.
Helstu úrslit urðu þannig að Ísak Hrafn Jóhannsson UMSS kastaði kúlu lengst allra 11 ára pilta, 7,72 metra en félagi hans í UMSS Birkir Heiðberg Jónsson varð fjórði. Ísak Hrafn varð annar í 60 metra hlaupi og félagi hans Aron Gabríel Samúelsson sjöundi. Betur gekk hjá þeim mátum í 600 metra hlaupi en þar stóð Ísak Hrafn uppi sem sigurvegari Aron Gabríel landaði þriðja sætinu. Næstur kom svo Ingi Hólmar Guðmundsson í Kormáki. Hann var svo í miklu stuði í hástökkinu þar sem hann sveif yfir 1,26 metra sem skilaði honum öðru sætinu og það sæti var einnig hans í langstökki er hann stökk 3,97 metra.
Valdimar Logi Guðmannsson USAH gerði gott mót en hann sigraði í 60 metra hlaupi pilta 12 ára á tímanum 8,93 sek. Hann sigraði einnig í hástökki er hann stökk yfir 1,42 m en félagi hans úr USAH Aron Örn Ólafsson stökk 1,36 m sem skilaði honum þriðja sætinu. Valdimar Logi var ekki hættur því hann sigraði sína þriðju grein er hann stökk 4,48 metra í langstökk en Aron Örn endaði í 4. sæti með stökk upp á 3,96 m. Til að setja punktinn yfir I-ið náði Valdimar Logi að kasta kúlu 7,79 metra og enn ein gullverðlaunin í höfn. Fast á eftir kom Aron Örn félagi hans með 6,72 metra kast sem skilaði honum öðru sætinu og í 600 metra hlaupi varð hann einnig annar. Félagi hans hjá USAH Hlynur Örn Ólason endaði í 5. sæti.
Í 60 metra hlaupi 13 ára pilta náði Bragi Hólmar Guðmundsson Kormáki að koma sér í 6. sætið og það fjórða var hans í 60 metra grind. Þá varð hann í öðru til þriðja sæti í hástökk, 1,46 metra.
Eyjólfur Örn Þorgilsson USAH varð annar í 600 metra hlaupi 13 ára pilta á tímanum 1:54,67 mínútu en Halldór Stefánsson UMSS kom fimmti í mark á 1:56,97 mín. Eyjólfur varpaði þriggja kílóa kúlunni 8,66 metra sem skilaði 4. sætinu.
Gabríela Dóra Vignisdóttir Kormáki tók þátt í 600 metra hlaupi stúlkna 11 ára og endaði hún í 5. sæti á tímanum 2:13,08 mín.
Harpa Katrín Sigurðardóttir USAH varð fjórða í 60 metra hlaup 13 ára stúlkna á 9,08 sek. og einnig fjórða í 60 metra grind og enn varð fjórða sætið hennar í langstökki, 4,53 metrar. Betur gekk í hástökkinu hjá Hörpu Katrínu þar sem hún endaði í þriðja sætinu.
Þá varð sveit UMSS önnur í 4x200 metra boðhlaup pilta 11 ára.
Öll úrslit er hægt að nálgast HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.