KR-ingar urðu að játa sig sigraða gegn góðu liði Tindastóls í gær – Myndband af síðustu mínútunni
Tindastóll tók á móti erkifjendunum í KR í Síkinu er liðin áttust við í tvífrestuðum leik í Subway deildinni í gær. Leikurinn var sveiflukenndur og spennandi og skiptust liðin á forystu lungann úr leiknum en í lokin náðu Stólar að skora sautján stig í röð og lögðu þar með grunninn að sætum sigri.
Eftir rólega og jafna byrjun náðu gestirnir að koma sér í vænlega stöðu upp úr miðjum fyrsta leikhluta í stöðunni 10-10 og settu 14 stig áður en leikhluta lauk meðan Stólar skoruðu aðeins fjögur. Þetta var Baldur þjálfari ekki sáttur við frekar en liðið sjálft sem náði að laga stöðuna áður en flautað var til hálfleiks en annan leikhlutann unnu Stólar 24 - 20 og staðan áður en flautað var til leiks á ný 38 – 44.
Áfram hélt barátta beggja liða áfram og áður en þriðji leikhluti var hálfnaður höfðu Skagfirðingar jafnað leikinn og komist yfir 54 – 50. En KR-ingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp og skiptust liðin á forystu þar til 3. leikhluta lauk en í honum höfðu Stólar skorað 25 stig en KR 18.
63 - 62 var staðan þegar lokahlutinn hófst og nú fór hrollur um stuðningsmenn þegar gestirnir voru komnir í 65 - 71 eftir aðeins þrjár mínútur en þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra þar sem þeir náðu 17 stiga rönni og náðu að snúa leiknum sér í hag og staðan orðin 82 – 71 þegar aðeins ein mínúta lifði leiks. Á þeirri mínútu, sem raunar tók tíu mínútur að klára, skoruðu Stólar sjö stig og KR níu og því virkilega sætur sigur heimamanna staðreynd, 89 – 80.
Með sigrinum er Tindastóll kominn með dágóða stöðu í baráttunni um úrslitaleikjasæti en liðið er nú með 20 stig, jafnmörg og Grindavík og Stjarnan en KR er með 16 stig og þar fyrir neðan eru ÍR og Breiðablik með 14.
„Mér fannst varnarleikur í fjórða leikhluta, liðsheild og vilji klára þennan leik. Mjög stoltur af því hvernig strákarnir kláruðu þetta í gær,“ segir Baldur þjálfari. Það vakti athygli að fjölgað hafði í þjálfarateymi Stólanna þar sem fyrrverandi leikmaður liðsins, Helgi Freyr Margeirsson, var kominn á hliðarlínuna með Svavari Atla og Friðriki Hrafni. Baldur segir Helga verða með út leiktímabilið. „Ég talaði við Helga og bað hann um að klára þetta með okkur. Hann hefur verið að koma inn á æfingar hjá okkur í vetur og hefur hálfpartinn verið hluti af hópnum. Það sem Helgi kemur með að borðinu er sterk nærvera, góð rödd, virðing frá liðinu, góðar hugmyndir um körfubolta. Einnig hefur hann komið með góða jákvæða orku inn í þetta,“ segir Baldur sem einnig var ánægður með mætinguna á pallana í gær. „Ég er hrikalega ánægður með stuðninginn sem við höfum fengið frá alvöru stuðningsmönnum liðsins í mótlæti. Síkið hefur verið mjög gott seinustu þrjá heimaleiki. Takk fyrir það og núna bætum við í,“ segir hann.
HÉR má sjá hvernig seinasta leikmínúta þróaðist en eins og fram kemur hér að framan tók um tíu mínútur að klára hana.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.