Klikkaður lokafjórðungur færði Stólunum sigur

Kátir Stólar. MYND: HJALTI ÁRNA
Kátir Stólar. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls heimsótti Þorlákshöfn í gær en þar mættu strákarnir okkar liði Þórs í 20. umferð Dominos-deildarinnar. Þórsarar hafa oft reynst okkur erfiðir og ekki ósennilegt að sumir stuðningsmenn upplifi enn martraðir frá því í úrslitakeppninni síðasta vor – jafnvel bæði í vöku og draumi. Leikurinn í gær var ekki sérstakur framan af en fjórði leikhlutinn var stórfurðulegur en skilaði engu síður tveimur vel þegnum stigum norður í Skagafjörð. Lokatölur leiksins voru 82-88 fyrir Tindastól.

Þórsarar voru skrefinu á undan á upphafsmínútum leiksins en upp úr miðjum hálfleik skellti dýralæknirinn í tvo þrista og staðan 9-15. Heimamönnum gekk illa að koma boltanum í körfuna og þegar Axel bætti við þriðja þristinum var staðan orðin 10-22. Staðan var 14-22 að loknum fyrsta leikhluta og Stólarnir gerðu fyrstu fjögur stigin í leikhluta tvö. Þórsarar voru þó ekki að baki dottnir og þeir fikruðu sig inn í leikinn og Jerome Frink minnkaði muninn í eitt stig, 30-31, þegar sex mínútur voru liðnar. Brodnik og Bilic gerðu næstu körfur en heimamenn enduðu hálfleikinn betur og voru tveimur stigum yfir í hálfleik, 40-38.

Lið Þórs hafði frumkvæðið í þriðja leikhluta og var jafnan 2–7 stigum yfir. Stólarnir hleyptu þeim ekki lengra frá sér og voru því inni í leiknum þegar þriðji leikhluti var úti, en engu að síður fimm fúlum stigum undir, 63-58. Þá tók við kafli sem virtist vera úr allt annarri bók. Lið Tindastóls herti vörnina í fjórða leikhluta og eftir þrjár mínútur voru strákarnir komnir einu stigi yfir, 63-64, og sá Jaka um stigaskorið. Þá var eins og allt lið Tindastóls kæmist skyndilega á hærra plan, Þórsarar komu að lokaðri vörn Stólanna sem skilaði sér í fljúgandi sóknarleik og þremur 3ja stiga körfum á hinum endanum og lið Tindastóls skyndilega komið með tíu stiga forystu. Og áfram héldu Stólarnir að bæta í. Þeir gerðu 19 fyrstu stigin í leikhlutanum og Friðrik, þjálfari Þórs, tók leikhlé. Það skilaði körfu en karfa frá Bilic og þriðji þristur Geigers á þessum klikkaða kafla breyttu stöðunni í 65-82! 

Geim óver? Það hlaut að vera og í kjölfar þess að Bilic bætti við stigi úr víti þá sendi Baldur Þór þá Hannes Inga og Friðrik Þór inn á þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. Við það tækifæri fóru heimamenn að pressa sem óðir væru. Þá upphófst martraðar-mínúta Stólanna sem virtust nánast lentir í þeytivindu Þórsara. Bilic byrjaði á að missa boltann og Emil setti þrist. Næstu fjórar sóknir Tindastóls komst liðið ekki út úr eigin vítateig og Þórsarar stálu boltanum fjórum sinnum og skoruðu að bragði. Eins og hendi væri veifað höfðu heimamenn gert 14 stig og munurinn kominn niður í fjögur stig þegar rúm hálf mínúta var eftir. Hvað var að gerast!? Í stöðunni 79-83 komu Geiger og Perkovic inn á á ný og Stólunum tókst að passa boltann betur. Þórsarar neyddust til að brjóta og Pétur og Geiger kláruðu leikinn af vítalínunni.

Deremy Geiger átti fínan leik fyrir Tindastól, gerði 23 stig og þar af sex 3ja stiga körfur í níu skotum. Jaka Brodnik gerði 18 stig og tók átta fráköst, Bilic gerði 17 stig, Pétur 11 og Axel 9. Perkovic og Helgi voru með 5 stig hvor en Perkovic hirti flest fráköst Tindastólsmanna eða níu stykki. Í liði Þórs var Jerome Frink stigahæstur með 26 stig en Marko Bakovic gerðir 12 stig og hirti tólf fráköst.

Í vitali við Vísi.is er haft eftir Baldri Þór, þjálfara Tindastóls, að hann hafi verið ánægður með frammistöðu sinna manna. „Gott að vinna leik og fá menn til að bíta frá sér og vera vel grimmir. Fyrri hluti leiks var hægur og ekki mikill ryþmi í okkar leik. Síðan smellur vörnin og það kemur meiri hraði í sóknina og þá var erfitt að eiga við okkur” sagði Baldur.

Þegar tvær umferðir eru eftir er lið Tindastóls í þriðja sæti Dominos-deildarinnar með 26 stig. Næsti leikur er hér heima næstkomandi fimmtudag en þá koma ÍR-ingar í heimsókn og má að venju reikna með hörkuleik gegn Breiðhyltingum. Þeir eru sem stendur í 7. sæti deildarinnar með 22 stig og hafa verið að gera vel eftir vetrarfríið. Það er því um að gera að fylla Síkið í síðasta heimaleik deildarkeppninnar og hita vel upp fyrir úrslitakeppnina. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir