Kenny með fjögur í hressilegum sigri á liði KV
Liðsmenn Knattspyrnufélags Vesturbæjar mættu á Krókinn í dag og öttu kappi við kempur Tindastóls í leik sem varð hin besta skemmtun. Gestirnir voru yfir í hálfleik, 0-1, en í síðari hálfleik streymdu mörkin inn og þegar upp var staðið voru það heimamenn sem höðu betur, 5-3, þar sem Kenny Hogg fór á gargandi kostum en kappinn gerði fjögur mörk og lagði síðan upp það síðasta.
Aðstæður á Sauðárkróksvelli voru fínar. Völlurinn pottþéttur og veðrið í góðu lagi þrátt fyrir smá norðangolu. Leikurinn fór ágætlega af stað og liðin skiptust á um að sækja og sköpuðu sér nokkur hálffæri. Gestirnir í KV voru ógnandi á sínum hægri kanti og unnu slöttung af hornspyrnum sem Stólarnir vörðust þó alla jafna með ágætum þó gestirnir fengu eitt-tvö færi. Kenny Hogg var ógnandi í liði Tindastóls og Stólarnir reyndu ítrekað að koma boltanum á bak við vörn KV og nokkrum sinnum var kappinn nálægt því að refsa gestunum. Allt útlit var fyrir markalausan fyrri hálfleik en mínútu fyrir hlé átti KV snarpa sókn en Brentton kom boltanum út fyrir hliðarlínu. Leikmenn KV voru snöggir að koma boltanum í leik en Stólarnir voru seinir til baka og supu seiðið af því. Enn brutust KV-menn upp að endamörkum, sendu boltann inn á markteiginn þar sem Þorvaldur Sveinsson var óvaldaður á fjærstöng og setti boltann af öryggi í markið. Þetta var talsvert gegn gangi leiksins þar sem Stólarnir höfðu á löngum köflum spilað vel. Staðan 0-1 í hálfleik.
Tindastólsmenn komu ákveðnir út í sólskinið í síðari hálfleik og á 54. mínútu jafnaði Kenny leikinn eftir klafs í teig KV. Gestirnir bættu þá í og eftir snarpa skyndisókn komust þeir aftur yfir á 57. mínútu með marki frá Brynjari Bjarnasyni. Leikurinn var nú galopinn og skjálfti í vörnum beggja liða. Hogg olli usla í teig KV á 64. mínútu, hann vann boltann og bossaði tvo varnarmenn áður en hann skóflaði boltanum í markið og jafnaði metin öðru sinni. Tveimur mínútum síðar fékk hann stungu inn fyrir vörn KV og lyfti laglega yfir Theodór Mathiessen í marki KV af löngu færi og kom Stólunum yfir 3-2.
Nú fór að bera á þreytu í herbúðum beggja liða og reyndar einnig hjá dómara leiksins. Ragnari Gunnars langaði ógurlega að komast á lista yfir markaskorara og hann reyndi langskot í stað þess að renna boltanum á Kenny sem var dauðafrír og skömmu síðar dæmdi dómarinn aukaspyrnu á Tindastól rétt utan teigs þegar flestir héldu að brotið hefði verið á leikmanni Stólanna. Upp steig Björn Þorláksson og hann sendi fast skot í markmannshornið án þess að Brentton kæmi nokkrum vörnum við og enn og aftur jafnt. Á 83. mínútu fékk Kenny síðan enn eina stungusendinguna inn fyrir vörn KV og á auðum sjó lék hann á markmanninn og skilaði boltanum örugglega í markið og gerði þar með sitt fjórða mark.
Það sem eftir lifði leiks þá reyndu Stólarnir að þétta vörnina á meðan KV tók áhættu og henti leikmönnum fram eins og mögulegt var. Stólarnir voru nálægt því að hegna þeim nokkrum sinnum en á 94. mínútu voru gestirnir hársbreidd frá því að jafna þegar þeir áttu bylmingsskot í þverslá eftir hornspyrnu. Tindastólsmenn hreinsuðu og bættu síðan við fimmta markinu í kjölfarið. Enn fékk Kenny stungusendingu inn fyrir fáliðaða vörn KV og í stað þess að gera fimmta mark sitt þá renndi hann boltanum til hliðar á Arnar Ólafsson sem renndi boltanum í tómt mark KV. Lokatölur 5-3.
Lið Tindastóls var klárlega betra liðið í dag og spilaði á köflum prýðilega. Það var helst að skjálfti í vörninni væri áhyggjuefni. Kenneth Hogg átti stjörnuleik, var sívinnandi og stórhættulegur allan leikinn. Þá var Benni flottur í síðari hálfleik og skapaði mikinn usla. Eftir níu umferðir eru Stólarnir nú í áttunda sæti með 12 stig og komnir í sæmilega fjarlægð frá fallsvæði 2. deildar. Næsti leikur er á Húsavík á þriðjudag og síðan kemur sterkt lið Hugins frá Seyðisfirði á Krókinn að viku liðinni.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.