Keflvíkingar hirtu þrjú stig á Króknum

Stólastelpur þurftu að kyngja ósanngjörnu tapi í kvöld eftir að Keflvíkingar unnu þær 1-0 í 1. deildinni í fótbolta á Sauðárkróksvelli í kvöld. Stólastúlkur virkuðu betri í fyrri hálfleik þrátt fyrir að dauðafærin vantaði. Þær voru þó heppnar að fá ekki á sig mark undir lok fyrri hálfleiks þegar Keflavíkurstúlkur gerðu harða hríð að marki en Dida varði dauðafæri þeirra.

Í seinni hálfleik gáfu heimastúlkur gestunum færi á að komast betur inn í leikinn og þyngdu þær sunnlensku sóknir sínar sem skilaði loks árangri á 73. mínútu er Katla María Þórðardóttir laumaði boltanum framhjá annars góðum markmanni Stólanna og í hægra hornið. 1-0 fyrir Keflavík.

Eftir þennan skell hresstust Stólarnir til muna og gerðu harða hríð að marki Keflavíkur og áttu gott skot á markið sem hefði mátt enda í netinu en markmaður Keflavíkur stóð sína plikt og varði glæsilega. Ekki breyttist staðan fram að leikslokum og því hirtu gestirnir öll stigin þrjú.

Stólastúlkur voru ágætar í leiknum, börðust vel og náðu ágætu spili sín á milli en sjá má að nokkuð vantar upp á samhæfinguna enda stutt síðan allar komu saman. Erlendu leikmennirnir Eva Banton og Madison Cannon voru að koma inn í hópinn og stóðu vel fyrir sínu, Ólína Sif kom til landsins í fyrradag eftir námsdvöl í Bandaríkjunum og Hrafnhildur Björnsdóttir er nýkomin heim eftir ævintýraferð til Balí en þær tvær eru lykilmenn í liðinu. En það má búast við því að sigrarnir detti inn með hækkandi sól og hita.

Aðstæður á Sauðárkróksvelli hafa ekki verið svona góðar í manna minnum í maí, iðagrænn völlur og afbragðs veður til knattspyrnuiðkunar og ekki vantaði fólkið á pallana.

Sjá stöðu HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir