Kári Marísson fékk samfélagsverðlaun Molduxa
Jólamót Molduxa í körfubolta stendur nú yfir og þrír leikir í fullum gangi hverju sinni. Átján lið taka þátt og reyna með sér þangað til úrslit liggja fyrir í dagslok. Við mótssetningu var Kára Maríssyni veitt Samfélagsviðurkenningu Molduxa.
Ungmennafélagið Molduxar veitti nú í þriðja sinn Samfélagsviðurkenningu Molduxa þeim einstaklingi sem hefur á einhvern hátt bætt samfélagið í Skagafirði með dugnaði og framlagi sem aðrir fá notið. Fyrir tveimur árum varð Skúli Jónsson þess heiðurs aðnjótandi að verða sá fyrsti sem þessa viðurkenningu hlaut og á síðasta Jólamóti var það Rannveig Helgadóttir.
Í ár komst samfélagsnefnd Molduxa að þeirri niðurstöðu að Kári Marísson sé verðugur fulltrúi þessarar viðurkenningar. Kári er fæddur í Reykjavík 20. nóv. 1951, í sambúð með Hrafnhildi Sonju Kristjánsdóttur og eiga þau saman tvö börn. Með fyrri konu sinni, Katrínu Axelsdóttur sem lést um aldur fram, á Kári þrjú börn auk dóttur Katrínar sem Kári gekk í föðurstað.
Kári byrjaði að leika körfuknattleik 16 ára gamall árið 1967, fyrir hálfri öld. Tveimur árum síðar eða 1969 lék hann sinn fyrsta landsleik.
Fyrsta liðið sem Kári lék fyrir var Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur, KFR, sem sameinaðist seinna Val, þaðan lá leiðin til Njarðvíkur, þar sem hann lék í þrjú ár, og síðan til Tindastóls 1978. Lék hann einnig og þjálfaði samhliða hjá Smáranum í Varmahlíð í nokkur ár.
Landsleikir Kára eru alls 35.
Það var mikil gæfa fyrir körfuboltalífið í Skagafirði að Kári skyldi hafa flutt í fjörðinn fagra vorið 1978 og byrjað að þjálfa körfubolta þá um haustið og hefur hann þjálfað samfleytt síðan.
Hann hefur komið að þjálfun í öllum karla og kvennaflokkum í gegn um tíðina hjá Tindastóli, ýmist sem aðalþjálfari eða aðstoðarþjálfari meistaraflokka og/eða hjá yngri flokkum.
Til gamans má nefna að Kári lék fótbolta öll uppvaxtarár sín, meðal annars með KR í 5.- og 6. flokki og svo Knattspyrnufélaginu Fram í 4. flokki. Þá varð hann þrefaldur Borgarfjarðarmeistari með ungmennafélaginu Þröstum en endaði ferilinn á Akranesi og lék eitt ár með meistaraflokki ÍA árið 1973 og eftir það sneri hann sér alfarið að körfunni.
Kári bað mig um að koma á framfæri kveðju til allra í þessu frábæra samfélagi sem við búum í hér í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.