Jou Costa verður áfram með Stólana
-Það er lykillinn að öllu að Costa haldi áfram með liðið, sagði Stefán Jónsson formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls við Feyki í kvöld en Stólarnir hafa komist að samkomulagi við spænska þjálfarann, Jou Costa, um að hann haldi áfram að þjálfa Tindastól næsta tímabil.
Costa tók við liði Stólanna um miðjan nóvember eftir að Pieti Poikola var látinn fara. Gengi liðsins og stemning Stólanna var ekki upp á marga fiska og því ekki annað í stöðunni en leita annað. Costa var fljótur að laga leik Tindastóls en það var þó fyrst nú á nýju ári sem hann náði að móta liðið að eigin mynd í kjölfar þess að Jerome Hill yfirgaf herbúðir Tindastóls.
Liðið spilaði stórvel síðustu umferðirnar í deildinni og kom sterkt til leiks í úrslitakeppninni þar sem Stólarnir sendu Keflvíkinga í sumarfrí. Það reyndist hinsvegar þungur róðurinn gegn Haukum og það er óþarfi að rifja þá sögu upp á ný. Reikna má með að talsverð hreyfing verði í leikmannamálum hjá Stólunum. Stuðningsmenn bíða eflaust spenntir eftir næsta tímabili og geta nú glaðst yfir því að frábær þjálfari verður við stýrið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.