Jafntefli hjá Stólunum í fyrsta leiknum
Lið Tindastóls spilaði fyrsta leik sinn í 4. deildinni í sumar á Króknum í dag en þá komu liðsmenn Knattspyrnufélags Kópavogs í heimsókn. Eins og vænta mátti þá voru þar engir aukvisar á ferð og úr varð spennuleikir þar sem hart var tekist á. Bæði lið áttu ágæta spretti en gestirnir pressuðu stíft síðustu mínútur leiksins eftir að hafa jafnað leikinn í 1-1 en sigurmark leit ekki dagsins ljós að þessu sinni og deildu liðin því stigunum.
Ágætt veður var á vellinum í dag þó norðangolan hafi glefsað í rassinn á stúkugestum. Það var pínu vorbragur á fyrstu mínútunum og talsvert um misheppnaðar sendingar en það voru gestirnir sem voru skeinuhættari framan af leik, náðu á stundum að opna vörn Stólanna en Einar Ísfjörð í markinu var á táberginu og bjargaði nokkrum sinnum vel. Síðan náðu heimamenn betri tökum á leiknum síðasta stundarfjórðunginn fram að hléi en úrslitasendingin rataði því miður oftar en ekki á rangan stað.
Jóhann Daði og Konni fyrirliði urðu að fara af velli í hálfleik og það riðlaði nokkuð leik Stólanna að vera án Konna. Heimamenn náðu þó laglegri skyndisókn á 50. mínútu sem endaði með því að Addi Ólafs var kominn inn á teig KFK en var tekinn niður þar og dómarinn dæmdi umsvifalaust víti. Basilio Jordan Meca smellti boltanum á vítapunktinn og skoraði af öryggi úr vítinu. Gestirnir settu nú aukinn kraft í sóknarleikinn og voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna metin. Jöfnunarmarkið kom á 78. mínútu eftir að Einar í markinu lenti í samstuði við framherja KFK og taldi dómarinn hann brotlegan – stuðningsmenn Stólanna var eðlilega ósammála og töldu að um háskaleik framherjans hefði verið að ræða. Það var hins vegar dómarinn sem fékk að ráða og Hubert Rafal Kotus jafnaði leikinn þó Einar væri ekki langt frá því að verja frá honum. Lokamínúturnar voru síðan að mestu í eigu gestanna sem fengu urmulinn allan af hornspyrnum og hálffærum en vörn Stólanna hélt og heimamenn fegnir þegar flautað var til leiksloka.
„Verðum að passa betur upp á boltann“
Feykir hafði samband við Donna þjálfara að leik loknum og byrjaði að spyrja hvað honum hefði fundist um einvígið. „Hörkuleikur gegn mjög sterku KFK liði. Það er nokkuð ljóst að þeir verða i toppbarráttu í okkar riðli. Og mér fannst við sleppa nokkuð vel með að fá stigið i lok leiks.“
Hvað fannst þér vanta upp á hjá Stólunum? „Við verðum að passa betur upp á boltann og vera áræðnari fram á við og bak við andstæðingana, auk þess að taka betri ákvarðanir með boltann á sóknarþriðjungnum. Það virðist of einfalt að komast á bakvið okkur og þar þurfum við að vinna í málunum.“
Hvað varstu ánægður með? „Ég var ánægður með stigið miðað við hvernig þetta spilaðist og var mjög ánægður með Einar markmann sem bjargaði okkur oft í leiknum. Við getum hins vegar betur heilt yfir og munum vinna i okkur sem lið og finna lausnir,“ sagði Donni að lokum.
Á morgun mæta Stólastúlkur síðan ÍR í Mjólkurbikarnum og verður leikið á Sauðárkróksvelli. Leikurinn hefst kl. 14:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.