Jafntefli á Hvammstangavelli

Dani fagnar markar heimamanna. Mynd: LAM
Dani fagnar markar heimamanna. Mynd: LAM

Sameiginlegt lið Kormáks/Hvatar tók á móti liði Kríu á Hvammstangavelli á laugardaginn. Aðstæður voru ekki góðar en mígandi rigning og hávaðarok var þegar leikurinn hófst. Stuttu seinna hætti að rigna en vindurinn ákvað að ferðast aðeins hraðar. Fjöldi áhorfenda var á leiknum en óformleg talning gaf 90 áhorfendur. 

Samkvæmt spekingunum hjá Aðdáendasíðu Kormáks  var tölfræðin ekki heimamönnum í hag en útlit var fyrir jafntefli, sem síðar reyndust úrslit leiksins.

Heimamenn byrjuðu að krafti og komst Hilmar Þór Kárason einn á móti markmanni en boltinn strauk stöngina. Algjörlega gegn gangi leiksins geystust Kríumenn í sókn og skoruðu fyrsta mark leiksins á 19. mínútu. Heimamenn áttu endalaus færi og boltinn vildi ekki í netið eins og svo oft áður. Það kom þó að því og átti Ingvi Rafn frábæra sendingu á Daniel Garceran Moreno sem dúndraði honum í netið. Staðan 1-1. Heimamenn áttu þó nokkur dauðafæri til viðbótar en leiknum lauk eins og áður sagði með jafntefli 1-1.

Sem stendur er Kormákur/Hvöt í þriðja sæti riðilsins, einu stigi á eftir ÍH sem situr í öðru sæti og sex stigum á eftir Kórdrengjum sem verma efsta sætið. Í fjórða og fimmta sæti riðilsins eru Kría og Léttir en bæði lið með tólf stig.

Næsti leikur heimamanna er á morgun, miðvikudag, kl. 20 á Hertz vellinum í Reykjavík gegn Létti. Síðasta viðureign liðanna endaði með jafntefli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir