Já það er fjör!
Tindastólsmenn fylgdu eftir glæstum sigri á Keflvíkingum á páskadegi með mögnuðum sigri í fyrsta leik einvígisins gegn deildarmeisturum Njarðvíkinga í undanúrslitum Subway-deildarinnar sem leikinn var í gærkvöldi suður með sjó. Heimamenn höfðu frumkvæðið framan af leik en Stólarnir héldu haus og svöruðu öllum góðu köflum heimamanna með glæsibrag. Í fjórða leikhluta skiptust liðin á um að hafa forystuna en Stólarnir höfðu fleiri tromp á hendi að þessu sinni og tryggðu sér sigurinn eftir talsverða dramatík á lokasekúndunum. Lokatölur 79-84 og Tindastólsmenn til alls líklegir.
Það var mikill stemmari í Ljónagryfju Njarðvíkinga og stuðningsmenn Stólanna gerðu sig að sjálfsögðu gildandi á pöllunum. Spennustigið var hátt í byrjun leiksins og boltinn gekk á köflum betur milli andstæðinga en samherja. Í liði heimamanna voru það Haukur Helgi og Fotios Lampropoulos sem drógu vagninn fyrir Njarðvíkinga til að byrja með en fleiri leikmenn Tindastóls létu til sín taka í sókninni. Siggi Þorsteins minnkaði muninn í eitt stig, 17-16, þegar tvær og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta en í kjölfarið fylgdi smávegis einbeitingarleysi hjá Stólunum og Logi Gunn og Basile refsuðu með tveimur auðveldum þristum. Heimamenn voru níu stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta, 25-16, og allt í sóma í Oklahóma hjá meisturunum. Fyrstu mínútur annars leikhluta var það Arnar Björnsson sem skemmti áhorfendum með skrautlegri skotsýningu beint úr villta westrinu. Stólarnir héldu í við meistarana en það reyndist þeim þó erfitt að trufla gríska risann í stanslausum áætlunarferðum sínum að körfu Stólanna. Þristar frá Bess og Pétri breyttu stöðunni í 38-36 þegar tæpar tvær mínútur voru til hálfleiks og Pétur jafnaði síðan metin,41-41, skömmu fyrir hlé en Mario Matasovic átt síðasta orðið í fyrri hálfleik með ágætri troðslu. Heimamenn því yfir í hálfleik og nú var spurning hvort liðið væri til í að leggja meira á sig.
Leikurinn var harður og leikmenn beggja liða gáfu ekki þumlung eftir. Það var þó enginn fantaskapur í gangi en línan hjá dómurunum var kannski teygjanlegri en stundum áður en hún hélt þó vel. Það var gott að dómarar leiksins dæmdu ekki skutlu í gær – hefði getað endað með talsverðum villuvandræðum beggja liða.
Zoran Vrkic kom sterkur inn í fjórða leikhluta
Pétur kom Stólunum yfir með þristi í byrjun síðari hálfleiks og síðan hófst Badmus handa við að setja boltann í körfu heimamanna. Jafnt var á flestum tölum og leikurinn hin besta skemmtun. Enn munaði tveimur stigum þegar þriðja leikhluta lauk, 62-60. Fjórði leikhluti hófst á því að Zoran Vrkic gerði sín fyrstu stig í leiknum og jafnaði 62-62. Hann fylgdi þessu eftir með því að setja þrist í næstu sókn eftir sóknarfrákastaballet undir körfu Njarðvíkinga. Badmus bætti síðan við tveimur stigum og heimamenn tóku leikhlé til að ráða ráðum sínum, það tókst Benna og skilaði tíu stigum í röð, staðan 72-67. Stólarnir svöruðu með þristum frá Vrkic, Arnari og Pétri og síðan bætti Vrkic við tveimur laglegum körfum og staðan 74-80 og tvær og hálf mínúta eftir. Basile setti niður tvö víti fyrir heimamenn en Siggi svaraði með því að troða. Njarðvíkingum gekk hálf illa að finna körfuna en Haukur Helgi minnkaði muninn í þrjú stig, 70-82, þegar 40 sekúndur voru eftir og bæði lið fóru illa að ráði sínu í næstu sóknum. Badmus tryggði Stólunum sigur með því að setja niður tvö vítaskot þegar um tíu sekúndur voru eftir og heimamönnum tókst ekki að laga stöðuna á þeim sekúndum sem eftir lifðu.
Stólarnir fögnuðu því frábærum sigri með fjölmennu stuðningsliði sínu að leik loknum. Lið Tindastóls spilaði vel allan leikinn og gaman var að sjá Baldur nota tíu leikmenn sem allir stóðu fyrir sínu en aðeins sjö leikmenn dönsuðu fyrir lið heimamanna. Arnar var bestur í liði Tindastóls, skilaði 20 stigum, fjórum fráköstum og fimm stoðsendingum auk þess sem hann stal þremur boltum. Badmus gerði 17 stig og tók níu fráköst, Pétur spilaði vel og gerði 16 stig, tók fimm fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Zoran Vrkic gerði 12 stig og þau komu öll í fjórða leikhluta, Siggi Þorsteins gerði níu stig og Bess var með sjö stig. Í liði Njarðvíkur var Fotios með 3ö stig og 12 fráköst og Basile gerði 19 stig og átti tíu stoðsendingar. Aðrir leikmenn Njarðvíkur skoruðu minna en tíu stig.
Næsti leikur liðanna verður í Síkinu sunnudaginn 24. apríl eða sama dag og Sæluvikan verður sett. Leikurinn hefst kl. 20:15. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.