Íþróttahreyfingin fær styrk vegna tekjutaps af völdum heimsfaraldurs
Ákveðið var á fundi ríkisstjórnar sl. föstudag að íþróttahreyfingin í landinu fengi 500 m.kr. fjárframlag frá stjórnvöldum sem mótvægisaðgerð gegn tekjutapi af völdum heimsfaraldurs.
Á vef Stjórnarráðsins er minnt á að samkomutakmarkanir af völdum heimsfaraldurs COVID-19 hafi sett verulegan svip á íþróttastarfið undanfarin misseri og hefur íþróttahreyfingin orðið af verulegum fjármunum vegna áhrifa þeirra á íþróttaviðburði. Einnig hefur umtalsverður kostnaðarauki fylgt þátttöku í keppnisstarfi sem sætt hefur samkomutakmörkunum.
„Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að styðja við íþróttahreyfinguna og gera henni kleift að sigla í gegnum ólgusjó heimsfaraldurs. Með þessum aðgerðum sýna stjórnvöld eindreginn vilja til að halda íþróttastarfinu gangandi, stóru jafnt sem smáu, með þeim jákvæðu áhrifum sem það hefur á allt samfélagið,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Fram kemur í tilkynningunni að útfærsla úthlutunar og framkvæmdar verði unnin í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), sem verði falið að óska eftir umsóknum um stuðning vegna fjárhagslegra afleiðinga kórónuveirunnar á einingar íþróttahreyfingarinnar. Sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga geta sótt um stuðning.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.