Israel Martin og strákarnir spila við Þýskaland í dag

Israel Martin og strákarnir í U20 landsliðinu.  MYND: KARFAN.IS
Israel Martin og strákarnir í U20 landsliðinu. MYND: KARFAN.IS

Ísland er með U20 lið í A-deild Evrópumótsins í körfubolta sem fram fer í Chemnitz í Þýskalandi þessa dagana. Engir leikmenn úr liði Tindastóls eru að spila með íslenska liðinu en það er þó ágæt tenging við Stólana því Króksarinn Israel Martin, þjálfari Tindastóls í Dominos-deildinni, þjálfar íslenska liðið.

Ísland var í riðli með Svíþjóð, Serbíu og Ítaliu og hóf leik á mótinu um síðustu helgi. Gengið hefur ekki verið alveg nógu gott, leikirnir þrír töpuðust allir, en þetta er í annað skiptið í sögunni sem Ísland á sæti í efstu deild í þessum aldursflokki.

Í dag leikur Ísland í 16 liða úrslitum keppninnar og mætir þar liði Þýskalands sem sigraði í C-riðli á meðan Ísland endaði í neðsta sæti D-riðils. Öll liðin sem þátt taka í mótinu komast í útsláttarkeppni. Þessi sömu lið mættust í leik um 7. sætið á mótinu fyrir ári síðan en þá vann Þýskaland með sex stigum. 

Á Karfan.is er að finna hlekk á leikinn en hægt er að horfa á hann í beinni útsendingu á netinu en leikurinn hefst kl. 18:00 – gæti verið gráupplagt fyrir þá sem eru nú þegar komnir með smá körfufiðring fyrir veturinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir