Ísak Óli öflugur á Meistaramóti Íslands um helgina og varði Íslandsmeistaratitil sinn í 60m grind

Ísak Óli var ánægður að taka titil í 60m grind, 6. árið í röð. Myndir: Frí.is.
Ísak Óli var ánægður að taka titil í 60m grind, 6. árið í röð. Myndir: Frí.is.

Um helgina fór fram í Laugardalshöll Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum þar sem fremsta frjálsíþróttafólk landsins var samankomið og keppti um 24 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. UMSS átti þrjá keppendur á mótinu sem allir stóðu sig vel.

Sveinbjörn Óli Svavarsson. Mynd: Frí.is

Ísak Óli Traustason varð atkvæðamestur Skagfirðinganna náði öðru sætinu í 60 metra hlaupi karla á tímanum 7,07, sjónarmuni á eftir Kolbeini Heði Gunnarssyni sem rann brautina á 6,96 sekúndum.
Sveinbjörn Óli Svavarsson, einnig í UMSS, spretti líka rækilega úr spori í sömu keppni og krækti í 5. sætið á 7,16 sek.

Ísak Óli endaði einnig í öðru sæti í langstökki er hann sveif 6,66 metra í sandgryfjuna og 4,12 metrar fleyttu honum í annað sætið í stangarstökki sem er hans besti árangur á árinu. Í 60 metra grindarhlaupi gerði hann sér lítið fyrir og kom fyrstur í mark á tímanum 8,49 sek. Árangur Ísaks varð til þess að UMSS endaði í 4. sæti í liðakeppninni en þar telja þrjú efstu í hverri grein til stiga.

Andrea Maya Chirikadzi. Mynd: Frí.is.

Andrea Maya Chirikadzi keppti í kúluvarpi og kastaði fjögurra kílóa kúlunni 10,82 metra sem tryggði henni 4. sætið en þetta er hennar besti árangur með svo þunga kúlu.

„Mótið gekk bara nokkuð vel, var ánægður að taka titil í 60m grind, en þetta var 6. árið í röð sem ég verð Íslandsmeistari í 60m grind. Hinar greinarnar voru ágætar og skiluðu mér 2. sæti og er ég hvað ánægðastur með 60m metra hlaupið þar sem ég hljóp mitt besta hlaup á þessu ári og vann nokkra sem höfðu hlaupið hraðar á tímabilinu. Langstökkið og stangarstökkið er allt að koma til en ég hef lítið geta æft það í vetur vegna þess að mannvirkin hérna á Króknum bjóða ekki alveg upp á það. En það þýðir lítið að væla yfir því, maður reynir bara að gera eins vel úr hlutunum og maður getur,“ segir Ísak Óli aðspurður um mót helgarinnar.

Hann segir að til hafi staðið að æfa tæknigreinarnar betur eftir áramót með því að skreppa á Akureyri og til Reykjavíkur en hafi í smá brasi með hnéð á sér ekkert getað stokkið í fimm vikur. En nú eru allir að horfa fram á veginn og segir hann keppnisárið líta þannig út að innanhússtímabilinu sé nú lokið og fókusinn settur á sumarið. „Þar ætla ég mér að bæta mig í tugþrautinni, á þar best 7007 stig og væri til í að hækka það skor umtalsvert. Við stefnum jafnvel á að skella okkur í víking til meginlands Evrópu og keppa í einni eða tveimur keppnum þar, það á bara eftir að koma í ljós hvað það verður. Eins væri gaman að sækja einhverja titla á Meistaramótinu í sumar.“

Ísak segist vera að aðlagast nýjum lífsstíl, þ.e. að vinna 100% vinnu meðfram æfingum. „Það er frábrugðið því að vera í skóla og æfa með því. Annars er starfið hérna á Króknum nokkuð öflugt en það er samt erfitt að geta ekki æft nokkrar greinar hér yfir veturinn en þó má segja að yfir sumartímann sé allt á heimsklassa hvað aðstöðumál varðar!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir