Ingvi Rafn með þrennu í mikilvægum sigurleik
147 áhorfendur mættu á Blönduósvöll í dag og væntanlega hafa þeir flestir verið á bandi heimamanna í Kormáki/Hvöt sem tóku á móti Elliða úr Árbæ í 3. deildinni í knattspyrnu. Eftir fjóra tapleiki í röð var eiginlega alveg nauðsynlegt fyrir Húnvetningana að spyrna við fótum og krækja í sigur. Það var einmitt það sem þeir gerðu en úrslitin voru 3-2 og Ingvi Rafn Ingvarsson fór mikinn í leiknum og gerði öll þrjú mörk heimamanna.
Hann kom sínu liði yfir á fjórðu mínútu og bætti um betur þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir. Pétur Óskarsson minnkaði muninn fyrir Elliðaá 42. mínútu og staðan 2-1 í leikhléi. Ingvi Rafn fullkomnaði þrennuna á 66. mínútu en gestirnir héldu áfram að sprikla og þeir minnkuðu muninn í eitt mark á ný þegar Daníel Steinar Kjartansson kom boltanum í markið framhjá Jose Luis Villar Alcaniz.
Fleiri urðu mörkin ekki og þrjú stig í hús hjá Húnvetningum. Við þennan sigur þéttist pakkinn í neðri hluta 3. deildar enn frekar. Lið KH er neðst með sex stig en þar fyrir ofan koma sex lið með níu til ellefu stig. Kormákur/Hvöt er með níu stig líkt og KFS og ÍH og er sem stendur í tíunda sæti á markatölu en tólf lið leika í 3. deildinni.
Næstkomandi laugardag skjótast Húnvetningar í Garðabæinn og spila við lið KFG sem er eitt af sterkari liðum deildarinnar. Það er þó engin þörf að örvænta því liðin eru jöfn og leikmenn Kormáks/Hvatar hafa sýnt að þeir eru alltaf líklegir til að skora. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.