Iðnaðarsigur í Síkinu
Tindastóll og Vestri mættust í Síkinu í gærkvöldi í sjöttu umferð Subway-deildarinnar. Gestirnir höfðu unnið einn af fyrstu fimm leikjunum í deildinni en Stólarnir á fínu róli með fjóra sigra. Það voru því kannski flestir sem reiknuðu með nokkuð þægilegum sigri heimamanna og svo virtist sem leikmenn Stólanna hefðu haldið það sjálfir því Ísfirðingar höfðu talsverða yfirburði til að byrja með. Þegar heimamenn trekktu upp vörnina fór að ganga betur og að lokum var ágætum sigri landað. Lokatölur 92-81 og Stólarnir í hópi þeirra fjögurra liða sem tróna á toppi deildarinnar.
Byrjunarlið Tindastóls var gjörsamlega úti á þekju í upphafi leiks og hvorki gekk né rak í sókninni. Skotin voru ekki tekin í flæði og var flest langt frá því að fara oní. Á meðan var eitt allsherjar partí á hinum endanum og Vestrarnir plöffuðu niður boltum eins og enginn væri morgundagurinn. Þeir voru yfir 2-11 eftir tvær mínútur og síðan 13-22 að átta mínútum liðnum en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-29 en þá hafði Pétur Rúnar skellt í flautuþrist og lagað stöðuna fyrir Stólana. Heimamenn komu baráttuglaðir til leiks í öðrum leikhluta og fljótlega var kominn annar bragur á leik liðsins. Smám saman saxaðist á forystu gestanna en það var þó ekki fyrr en tvær mínútur voru til hálfleiks að Arnar kom liði Tindastóls yfir í fyrsta sinn í leiknum, 41-40. Allt var jafnt í hálfleik og staðan 45-45.
Enn var jafnt, 49-49, þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta en þá komu fimm stig í röð frá heimamönnum eftir körfur frá Badmus og Bess. Stólarnir létu þessa forystu aldrei af hendi þó svo að illa hafi gengið að hrista Vestrana af sér. Fimm stigum munaði þegar lokafjórðungurinn hófst, 65-60, og það fór að fara um stuðningsmenn Stólanna þegar Julio Afonso minnkaði muninn í fjögur stig, 70-66, og gestirnir fengu tvo möguleika til að minnka muninn enn frekar en brást bogalistin.
Góður kafli Stólanna í fjórða leikhluta
Þar rann hins vegar tækifærið úr greipum gestanna því á næstu fjórum mínútum náðu Stólarnir 13-2 kafla og gerðu út um leikinn, staðan 83-68. Mestur varð munurinn á liðunum 16 stig á þessum kafla en gestirnir gáfust ekkert upp og náðu að minnka muninn í átta stig, 89-81, þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum. Pétur og Bess, stigahæstu leikmenn Tindastóls, bættu í fyrir heimamenn í blálokin.
Eftir frábæran leik í Njarðvík þar sem Tindastólsmenn voru mættir í bardaga þá var leikur liðsins í gær rislítill. Pétur kom af bekknum í fyrsta leikhluta og náði að stoppa í götin hjá heimamönnum, setti niður þrist úr sínu fyrsta skoti og fór reyndar svo að hann setti niður öll sex skot sín utan af velli, þar af þrjú utan 3ja stiga línunnar. Hann endaði framlagshæstur hjá Stólunum eftir að hafa gert 18 stig, tekið fjögur fráköst og átt fimm stoðsendingar. Bess var stigahæstur með 19 stig en hann var lengi að finna fjölina sína í gær. Þá enduðu Siggi Þorsteins, Taiwo Badmus og Sigtryggur Arnar allir með 13 fráköst, Badmus og Siggi hirtu báðir átta fráköst en Siggi skilaði síðan fjórum stoðsendingum. Masssamba og Axel gerðu sjö stig hvor og Viðar tvö. Í liði gestanna voru Bosley og Julio atkvæðamestir með 22 og 21 stig en lið Vestra er sýnd veiði en ekki gefin og ljóst að ekkert lið hefur efni á að vanmeta þá.
Fjögur lið eru nú efst og jöfn með tíu stigum að loknum sex umferðum en það eru Grindavík, Þór Þorlákshöfn, Keflavík og lið Tindastóls. Næstkomandi fimmtudag fara strákarnir okkar í Garðabæinn og mæta þar liði Stjörnunnar sem hafa reynst erfiðir viðureignar upp á síðkastið. Það er því um að gera að hrista Stjörnuslenið af sér og sækja tvö stig á Mathús Garðabæjar höllina. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.