„Í raun eins og menn séu bara að bíða eftir því að tímabilið klárist“

Baldur þjálfari var ósáttur við sína menn í kvöld. Það er ljóst að nú þurfa menn að bíta í skjadarrendur. MYND: HJALTI ÁRNA
Baldur þjálfari var ósáttur við sína menn í kvöld. Það er ljóst að nú þurfa menn að bíta í skjadarrendur. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn spiluðu í Grindavík í kvöld og töpuðu tólfta leiknum sínum í Dominos-deildinni en nú er aðeins ein umferð eftir í Dominos-deildinni. Grindvíkingarnir voru sterkara liðið í leiknum og leiddu nánast allan tímann. „Þetta var áframhald frá síðasta leik gegn Keflavík þar sem við erum bara flatir og í raun eins og menn séu bara að bíða eftir því að tímabilið klárist,“ sagði Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, í samtali við Vísi að leik loknum. Lokatölur voru 93-83 fyrir heimaliðið.

Tomsick kom liði Tindastóls yfir, 5-7, eftir tæpar tvær mínútur en Kristinn Pálsson henti í þrist fyrir Grindvíkinga í kjölfarið og eftir það komst lið Tindastóls aldrei yfir í leiknum. Staðan var 27-22 að loknum fyrsta leikhluta og heimamenn voru öflugir í öðrum leikhluta, náðu mest 15 stiga forystu en staðan í hálfleik var 53-39. Tindastólsmenn gerðu atlögu að forystu Grindavíkur undir lok þriðja leikhluta og Tomsick minnkaði muninn í sex stig, 66-60, af vítalínunni og þannig var staðan þegar lokaleikhlutinn hófst. Stólarnir náðu ekki að fylgja þessum ágæta kafla eftir og munurinn á liðunum yfirleitt þetta 8-10 stig allt til leiksloka.

Tomsick var að vanda stigahæstur, gerði 23 stig, en nú gerðust þau undur og stórmerki að kappinn hitti engu 3ja stiga skoti þrátt fyrir sjö tilraunir. Nýting hans var stórfín innan teigs og þa var hann 7/7 af vítalínunni. Brodnik var með 17 stig og 7 fráköst, Whitfield 14 stig og tíu fráköst, Axel sett níu stig á töfluna og Pétur átta. Udras var enn og aftur slakur, tók að vísu fimm sóknarfráköst en aðeins tvö í vörn. Kazembe, Kristinn Páls, Óli Óla og Björgvin Hafþór áttu fínan leik í liði Grindavíkur.

Baldur Þór var ósáttur við sína menn í viðtali við Vísi að leik loknum eins og vitnað var til hér að framan. Þar sagði hann jafnframt: „Ég er mjög ósáttur með frammistöðuna í leiknum. Heilt yfir vorum við flatir varnarlega og það vantar allan takt í þetta. Ég efast um að nokkur maður geti litið í eigin barm og sagt að þetta hafi verið hans leikur. Það þarf að finna lausnir á þessu. Við höfum verið að gera ákveðna hluti vel, höfum verið í vandræðum sóknarlega tvo leiki í röð. Við þurfum að fara aftur í það sem við vorum að gera vel í þessum leikjum gegn Hetti, Þór Akureyri og Þór frá Þorlákshöfn þar sem við vorum að skora stig. Að sama skapi þurfum við að gera betur varnarlega í að átta okkur á aðstæðum og sjá þeirra hreyfingar fyrr í stað þess að bregðst við einni sekúndu of seint. Þá eru þeir að komast djúpt og við í vandræðum. Við þurfum klárlega að vera betri en þetta."

Hljómar eins og það sé bara eitt hjól undir bílnum og menn séu búnir að stökkva út löngu áður en sæluhúsið dúkkar upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir