Hvíti riddarinn féll í valinn á Sauðárkróksvelli

Krista Sól Nielsen skoraði fyrsta mark Tindastóls í gær. Mynd: PF.
Krista Sól Nielsen skoraði fyrsta mark Tindastóls í gær. Mynd: PF.

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna voru heldur betur á skotskónum í sínum fyrsta leik í 2. deildinni sl. laugardag er Hvíti riddarinn úr Mosfellsbænum var lagður að velli með fimm mörkum gegn engu.

Stólastúlkur sýndu það strax frá upphafi að þær ætluðu sér sigur í þessum leik enda var nánast einstefna að marki gestanna allan leikinn. Þrátt fyrir það kom fyrsta markið ekki fyrr en 30 mínútur voru liðnar af leiknum þegar Krista Sól Nielsen kom boltanum í netið. Þannig hélst staðan þangað til 20 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þá brustu allar flóðgáttir og Vigdís Edda Friðriksdóttir bætti við öðru marki Stóla. Þremur mínútum síðar stimplaði Murielle Tiernan sig inn og opnaði markareikning sinn í deildarkeppninni. Hún hefur skorað áður fyrir Stóla en það var í bikarnum á móti Gróttu fyrr í sumar.

Á 78. mínútu varð  Katrín Arna Kjartansdóttir fyrir því óhappi að skora sjálfsmark og staðan orðin 4-0 og sex mínútum síðar rak Guðrún Jenný Ágústsdóttir sverðið endanlega í Riddarann hvíta og tryggði Stólum 5-0 sigur og efsta sætið í riðlinum.

„Mér fanst við hægar í gang, vanta tempó í leikinn okkar. Á móti kemur að við erum með lið sem er ekki vant að halda boltanum mikið og þær lögðust mjög aftarlega þannig að það tók smá tíma til að finna leiðir mér fannst það takast í seinni hálfleik þegar hinar voru orðnar þreyttar,“ sagði Jón Stefán Jónsson, þjálfi Tindastóls.

Hann er óhræddur við að segja frá hvert takmark stelpnanna er í sumar en það er að taka þátt í toppbaráttu í 2. deildinni. „Það þarf allt að ganga upp. Við þurfum að fá góðan stuðning á heimavelli og sleppa við meiðsl og allt slíkt en á móti kemur að við erum með þéttan hóp af heimastelpum sem vilja berjast fyrir sitt félag. Þess vegna held ég að þetta sé hægt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir