Húsvíkingar stálu öllum stigunum í uppbótartíma
Lið Tindastóls skutlaðist til Húsavíkur í gær og spilaði þar við heimamenn í Völsungi. Eftir hörkuleik þar sem Stólarnir voru mun sterkari aðilinn voru það hinsvegar heimamenn sem potuðu inn eina marki leiksins í uppbótartíma og svekkjandi tap því staðreynd.
Það var Ólafur Jóhann Steingrímsson, sem komið hafði inn á sem varamaður skömmu áður, sem gerði markið á 91. mínútu. Þá höfðu Stólarnir fengið aukaspyrnu inni á vallarhelmingi Völsungs en upp úr henni náðu heimamenn skyndisókn sem þeir nýttu til að næla í stigin þrjú. Það var markmaður Völsunga sem hélt þeim inni í leiknum en hann varði oft og tíðum snilldarlega í leiknum og Stólarnir óheppnir að vinna ekki leikinn.
Það er ljóst að eftir fyrri umferðina í 2. deild hafa Stólarnir nælt í sjö stig af 33 mögulegum en leikur liðsins hefur batnað mikið eftir því sem liðið hefur á sumarið. Liðið er sem stendur í tíunda sæti, fyrir ofan Víði Garði og Huginn Seyðisfirði, en þau eiga leik til góða á Stólana. Lið Tindastóls fékk á sig mikið af mörkum framan af tímabilinu en Bjarki og félagar virðast hafa náð að skrúfa fyrir þann leiða leka og liðið er farið að gefa andstæðingum sínum hörkuleiki.
Það er því góð von til þess að strákarnir nái að stíga enn betur upp í síðari umferðinni og bæti leik sinn enn frekar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.