Húnvetningar lönduðu öðru sætinu í boccia
Félag eldri borgara í Vestur – Húnavatnssýslu lenti í öðru sæti á árlegu Vesturlandsmóti félags eldri borgara í boccia sem fram fór í Borgarnesi síðastliðinn laugardag. Þetta mun vera í ellefta skipti sem mótið er haldið en a.m.k. sex sveitarfélög hafa skipst á að hýsa það. Skessuhorn greinir frá því að til leiks hafi mætt að þessu sinni 16 sveitir; fjórar frá Akranesi, Borgarbyggð og Stykkishólmi og tvær sveitir frá Snæfellsbæ og Húnaþingi vestra.
Úrslit urðu þau að Félag eldri borgara á Akranesi bar sigur úr býtum. Sigursveitina skipuðu þeir Böðvar Jóhannesson, Þorvaldur Valgarðsson og Baldur Magnússon. Í öðru sæti varð Félag eldri borgara í Vestur – Húnavatnssýslu en sveitina skipuðu Eggert Karlsson, Baldvin Baldvinsson og Anna Scheving. Í þriðja sæti varð Félag eldri borgara í Snæfellsbæ. Þá sveit skipuðu Einar Kristjónsson, Gunnar Gunnarsson og Sævar Friðjónsson.
Keppt var í fjórum riðlum, fjórar sveitir í hverjum riðli. Sigurvegarar í riðlunum kepptu síðan í undanúrslitum og að lokum sigurvegarar undanúrslita til úrslita um sæmdarheitið Vesturlandsmeistari í boccía 2017. Sigurvegarar fengu að launum farandbikar sem Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði gaf árið 2012.
Heimild: Skessuhorn.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.