Huginn hafði betur í bragðdaufum leik á Króknum

Arnar Ólafs í baráttunni í dag.  MYND: ÓAB
Arnar Ólafs í baráttunni í dag. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn fengu Huginn frá Seyðisfirði í heimsókn í 2. deild karla í knattspyrnu í dag. Þrátt fyrir ágætt samspil beggja liða úti á vellinum var leikurinn bragðdaufur og fátt um færi. Það voru gestirnir sem gerðu eina mark leiksins í fyrri hálfleik og Stólunum tókst ekki að jafna. Lokatölur 0-1.

Í lið Tindastóls í dag vantaði Benna á vinstri kantinn og Brentton í markið. Inn í liðið komu í þeirra stað Arnar Ólafsson og í markið steig hinn síungi hálf-fimmtugi Gísli Eyland Sveinsson. Jafnræði var með liðunum framan af leik en síðan náðu gestirnir yfirhöndinni og áttu nokkrar snarpar sóknir. Lið Hugins er vel spilandi, en það féll óverðskuldað niður úr 1. deild síðastliðið haust. Sex erlendir leikmenn eru í liðinu sem var vel skipulagt og gaf fá færi á sér. Þeir komust yfir á 33. mínútu þegar Blazo Lalevic skoraði með hörkuskoti af löngu færi. Þar voru Stólarnir ekki nógu snöggir að loka á skyttuna og Gísli átti ekki möguleika í markinu.

Í síðari hálfleik komu Stólarnir skarpari til leiks og héldu boltanum betur. Gestirnir lágu þétt til baka og sem fyrr gekk Tindastólsmönnum illa að komast í færi – flest allar sóknir stoppuðu við vítateig gestanna. Besta færið átti þó Kenny Hogg sem komst inn fyrir vörn Hugins en Bergsteinn Magnússon markvörður sá við honum. Síðasta stundarfjórðunginn opnaðist leikurinn talsvert þegar Stólarnir reyndu að setja meira púður í sóknina en allt kom fyrir ekki. Seyðfirðingar pökkuðu kampakátir stigunum þremur ofan í tösku og fóru með heim, enda komnir í annað sæti deildarinnar.

Stólarnir voru ekki nógu frískir í dag og náðu ekki að ógna sem skildi. Kenny og Raggi áttu þó báðir ágæta spretti og þá áttu Konni og Stephen ágætan leik inni á miðjunni. Það var þó augljóst að liðið saknaði þess að hafa ekki Benna til að halda boltanum ofar á vellinum og skapa usla í vörn gestanna.

Lið Tindastóls er sem stendur í níunda sæti 2. deildar, en tólf lið eru í deildinni. Næstu tveir leikir eru gríðarlega mikilvægir; heimaleikir gegn Sindra og Fjarðabyggð sem eru í neðstu tveimur sætum deildarinnar. Hornfirðingar koma í heimsókn um næstu helgi og Fjarðabyggð helgina þar á eftir.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir