HK sigur þrátt fyrir góða endurkomu Stólastúlkna
Tindastóll og HK mættust í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í kvöld. Það má segja að þetta hafi verið leikur tveggja ólíkra hálfleika því HK réð ferðinni frá fyrstu mínútu í fyrri hálfleik og leiddu sanngjarnt, 0-1, í hálfleik. Stólastúlkur náðu undirtökunum með mikilli baráttu í síðari hálfleik en þrátt fyrir að hafa skapað sér mýmarga sénsa síðasta stundarfjórðunginn þá kom jöfnunarmarkið ekki í þetta skiptið. HK stúlkurnar hans Guðna Þórs fóru því með öll þrjú stigin með sér suður eftir 0-1 sigur.
Lið HK hóf leikinn af krafti og heimastúlkur komust hreinlega ekki fram að miðju með boltann, boltinn hirtur af þeim um allan völl og hver sóknin af annarri dundi á vörn Tindastóls. Dómarinn sá aumur á Önnu Margréti sem hefði hæglega getað fengið að líta rauða spjaldið þegar hún lenti í smá glímutökum við leikmenn HK sem var að sleppa inn fyrir vörn Tindastóls en hann lét gula spjaldið duga. Það var svo sem engin panki í vörninni og Bryndís og stöllur sópuðu upp ítrekað og gestirnir fengu í raun fá góð færi. Þegar leikurinn stöðvaðist um miðjan fyrri hálfleik vegna höfuðmeiðsla leikmanns HK þá náðu Donni og stelpurnar að fara aðeins yfir málin og liðinu gekk betur að halda í boltann í kjölfarið. Eftir ríflega hálftíma leik kom eina marki leiksins og það var jóla- og afmælisgjöf allt í einum fallega skreyttum pakka í boða Bryndísar. Hún var með boltann í mestu makindum og ætlaði að senda einfalda sendingu aftast en virtist hreinlega ekki sjá Isabellu Evu Aradóttur, fyrirliða HK, sem fékk boltann frá Bryndísi, komst auðveldlega inn á vítateiginn og setti boltann í bláhornið, óverjandi fyrir Amber í markinu. Lið Tindastóls reyndi að trekkja sig í gang en liðið virkaði þungt og var endalaust á eftir í seinni boltann og það kann ekki góðri lukku að stýra.
Jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik en síðan snérist dæmið við og nú voru það Stólastúlkur sem unnu návígin og voru grimmari. Það virtist þó lengi of langt á milli Murr og Hugrúnar þannig að þær voru ansi einangraðar í fremstu víglínu. Eftir því sem leið á hálfleikinn færðist Tindastólsliðið ofar á völlinn og það fóru að skapast færi. Kappið var þó stundum of mikið sem bitnaði á gæðunum en lið HK varðist líka vel. Krafturinn í Stólastúlkum var kunnuglegur og það fór svo að liðið skapaði sér góð færi en það gekk illa að hitta markið. Næst komust stelpurnar því að jafna eftir hornspyrnu á lokasekúndum leiksins, allt lið Tindastóls var þá komið inn á teig og boltinn barst á Kristu sem setti boltann í þverslána og út!
Stólastúlkur urðu því að sætta sig við súrt tap í kvöld en aðeins vantaði í hópinn; Aldís María í banni og Sólveig ekki með. Hópurinn er ekki breiður og má ekki við miklum áföllum – og ekki litlum heldur. Lið HK er eitt best spilandi lið Lengjudeildarinnar og engin skömm að lúta í gras fyrir Kópavogsstúlkum. Það má bara ekki breytast í vana.
Feykir heyrði í Guðna Þór Einarssyni, þjálfara HK, að leik loknum og spurði hann hvað honum hefði fundist um leikinn. „Hörkuleikur eins og við var að búast milli tveggja góðra liða. Tindastóll spilaði flottan fótbolta, sérstaklega í seinni hálfleik, en má segja að lukkudísirnar hafi verið með okkur í liði að þessu sinni.“
Alla jafna fettir Feykir ekki fingur út í dómgæslu á leikjum Tindastóls en dómarinn hefur örugglega átt betri stundir með flautuna – það var sannarlega þoka á Króknum í kvöld en hún var ekki svona mikil!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.