Hilmar Þór krækti í stig fyrir Kormák/Hvöt
Það var leikið á Blönduósvelli í gærkvöldi í tíundu umferð 3. deildar. Þá tóku heimamenn í Kormáki/Hvöt á móti Kópavogspiltum í liði Augnabliks. Það fór svo að liðin sættust á skiptan hlut og eru Húnvetningar nú í níunda sæti deildarinnar með 11 stig. Úrslit leiksins voru 1–1.
Gestirnir komust yfir á 34. mínútu með marki Arnars Laudals Arnarssonar og var staðan 0–1 í hálfleik. Það var síðan Hilmar Þór Kárason sem jafnaði metin á 66. mínútu, þá nýlega kominn inn á, en kappinn hefur ágætt nef fyrir netmöskvunum. Dómari leiksins sveiflaði gula spjaldinu af miklum móð síðustu mínútur leiksins en allir héldust þó inni á vellinum.
Sem fyrr segir er lið Kormáks/Hvatar í níunda sæti rétt eins og það var fyrir leikina í gær en þá fór fram heil umferð í 3. deildinni. Þó urðu örlitlar sviptingar því lið KFS fór með sigri upp fyrir K/H sem potaðist hinsvegar upp fyrir Vængi Júpiters sem máttu sætta sig við tap á Hornarfirði. Í síðustu umferð fyrri umferðar deildarinnar sækir lið Kormáks/Hvatar botnlið KH heim en leikið verður á Valsvelli að Hlíðarenda í Reykjavík nú á laugardaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.