Hill gaf Helga og félögum einn á snúðinn
Þriðji leikurinn í einvígi Keflavíkur og Tindastóls fór fram í Sláturhúsinu í Keflavík í kvöld. Með sigri hefðu Stólarnir sent heimamenn í sumarfrí en Keflvíkingar voru ekkert á þeim buxunum, náðu upp prýðis baráttu og góðum leik á meðan flest fór í baklás hjá Tindastólsmönnum. Lokatölur urðu 95-71 og ljóst að Stólarnir verða að girða sig í brók fyrir fjórða leikinn sem fram fer í Síkinu annan í páskum.
Það var allt í þessu fína standi hjá Stólunum framan af leik, Lewis í góðu stuði og þegar fimm mínútur voru liðnar var staðan 6-16. Þá tóku Keflvíkingar leikhlé, réðu ráðum sínum og komu einbeittir til leiks. Bæði lið skoruðu grimmt út leikhlutann og staðan 25-31 að honum loknum. Það eina sem skyggði á gleði Stólanna var að Helgi Viggós var kominn með þrjár villur og var því plantað á bekkinn. Án Helga varð leikurinn auðveldari fyrir Jerome Hill sem átti eftir að láta mikið til sín taka þar sem hann náði meðal annars að slá Helga Margeirs í öðrum leikhluta án þess að dómarar leiksins gerðu nokkuð í málinu. Stólarnir náðu tíu stiga forystu í byrjun annars leikhluta en smá saman fór varnarleikur heimamanna að slá Stólana út af laginu og skotin fóru að klikka. Þegar Lewis fékk sína þriðju villu fjórum mínútum fyrir hlé þá riðlaðist leikur Tindastóls og ekki batnaði það þegar Pétur fékk sína þriðju villu skömmu síðar. Pétur, Lewis og Helgi Viggós voru því allir komnir á bekkinn og Dempsey varð að setjast með þeim svo Gurley gæti stjórnað leik liðsins. Lið Tindastóls var því ansi lágvaxið og Hill lék lausum hala. Keflvíkingar komust sex stigum yfir, 47-41, en Stólarnir klóruðu sig í jafna stöðu í hálfleik, 49-49.
Síðari hálfleikur er eitthvað sem Tindastólsmenn vilja sennilega gleyma í einum grænum því þá gerði liðið aðeins 22 stig. Það nánast klikkaði allt sem klikkað gat. Liðið lék ekki sem lið því nú ætluðu menn að gera allt upp á eigin spýtur. Dempsey misnotaði þrjú sniðskot þar sem hann var nánast einn undir körfu Keflvíkinga, öll 3ja stiga skot nema eitt klikkuðu og mörg hver úr sæmilega opnum færum. Boltinn virtist hreinlega ekki vilja niður í körfu Keflvíkinga. Smá neisti kom í Stólana í upphafi fjórða leikhluta þegar Helgi Viggós kom inn en hann var ekki lengi að næla sér í tvær villur til viðbótar og þá gáfust Stólarnir að mestu upp á verkefni kvöldsins. Lokatölur sem fyrr segir, 95-71.
Líkt og Jou Costa, þjálfari Tindastóls, sagði eftir leik, þá voru Keflvíkingar sterkari á öllum sviðum körfuboltans í kvöld og lið Tindastóls spilaði ekki þann körfubolta sem það vill spila. Heimamenn hittu betur og tóku miklu fleiri fráköst (67/47) en það er auðvitað handónýtt að vera án Helga og Dempsey meirihluta leiksins. Í liði Tindastóls var Lewis skástur með 22 stig og 11 fráköst og þá átti Viðar ágætan leik með 11 stig og 5 fráköst. Gurley gerði sömuleiðis 11 stig en misnotaði fjölda skota og var alls ekki að nota félaga sína vel. Pétur var með 9 stig og 5 stoðsendingar en alls var lið Tindastóls með 9 stoðsendingar í leiknum og segir það meira en mörg orð.
Í liði Keflavíkur voru Valur Orri, Magnús Már og Jerome Hill hreinlega óstöðvandi. Hill skilaði 28 stigum og 21 frákasti.
Næsti leikur er annan í páskum kl. 19:15 og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að fjölmenn og mæta tímanlega. Áfram Tindastóll!
Stig Keflavíkur: Hill 28, Magnús Már 24, Valur 17, Guðmundur 7, Reggie 7, Ágúst 6, Andrés 3 og Maggi Gunn 3.
Stig Tindastóls: Lewis 22, Gurley 11, Viðar 11, Dempsey 9, Pétur 9, Helgi Viggós 6 og Helgi Margeirs 3.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.