Helsúrt þorrablót í Síkinu
Það var hart barist í Síkinu í kvöld þegar Íslandsmeistarar KR kíktu í heimsókn. Eftir sigur í Njarðvík voru stuðningsmenn Stólanna bjartsýnir fyrir leikinn. Eftir slæma byrjun spiluðu Stólarnir glimrandi körfubolta í 15 mínútur en létu eiginlega þar við sitja því gestirnir höfðu völdin lengstum í síðari hálfleik, jöfnuðu í blálokin og sigruðu síðan í framlengingu. Þetta var helsúr ósigur og ekki var það að kæta Síkisbúa að það var kóngurinn (því miður ekki Urald) sem kom, sá og sigraði. Jón Arnór er því miður bara til í einu eintaki. Lokatölur 88-91.
Fyrirfram var reiknað með hörkuleik, enda mikil breidd í báðum liðum og margir góðir körfuboltamenn á partketinu. Það voru gestirnir úr Vesturbænum sem byrjuðu leikinn betur með Jón Arnór gjörsamlega óspilandi í vörn og sókn. Skotin smullu niður án fyrirhafnar og hvað eftir annað truflaði hann sóknarleik Stólanna. Urald gerði fyrstu sjö stig Tindastóls en eftir sex mínútna leik minnkaði Pétur muninn í 10-11 með þristi. Jón Arnór svaraði með átta stigum og staðan 10-19. Martin tók leikhlé og Ingi Þór setti kónginn á bekkinn og þá vænkaðist hagur Stólanna sem gerðu átta stig á síðustu tveimur mínútum leikhlutans og staðan 18-21. Annan leikhluta spiluðu heimamenn af fullkomnun, hraðinn var mikill og KR-ingar voru alveg úti á þekju. Stólarnir gerðu 19 stig í röð á þessum kafla og staðan 32-21 eftir þrist frá Brilla. Boyd og Jón Arnór gerðu nú nokkrar körfur fyrir KR og minnkuðu muninn í 33-31 um miðjan annan leikhluta en þá kom annar frábær kafli hjá Stólunum sem luku sýningunni svo með troðslu frá Urald eftir misheppnað innkast KR-inga. Staðan 51-36 í hálfleik og aðeins þrír leikmenn KR komnir á blað.
Urald King kom liði Tindastóls 21 stigi yfir þegar þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta, 58-37, og Viðar setti niður þrist og kom Stólunum í 63-42 og þannig var staðan þegar fimmtán mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Þá hrökk vörn KR rækilega í gírinn og Stólarnir misstu fótanna á báðum endum vallarins. Enn var það Jón Arnór sem fór fyrir sínum mönnum og hann fór vel með skotin sín. Að loknum þriðja leikhluta var staðan orðin 69-58, munurinn ellefu stig og þristur frá Axel Kára lagaði stöðuna í byrjun fjórða leikhluta. Þá kom sex mínútna kafli þar sem Stólarnir gerðu ekki stig og gestirnir minnkuðu muninn í tvö stig. Staðan 72-70 og þá loks gerði Danero Thomas sín fyrstu stig í leiknum. Emil Barja minnkaði muninn í tvö stig og nú var spennan áþreifanleg, varnir beggja liða börðust um hvern bolta. Pétur kom Stólunum í 75-72 þegar hann setti niður annað vítið sitt og eftir að Boyd klikkaði á skoti kom Danero Stólunum fimm stigum yfir þegar mínúta var eftir. Emil Barja minnkaði muninn eftir alltof auðvelt gegnumbrot og eftir klúðurslega sókn Tindastóls náði King ekki að skora og KR fékk boltann. Þeir náðu að láta boltann ganga þangað til Julian Boyd stóð einn og óvaldaður utan 3ja stiga línunnar og hann skoraði af miklu öryggi og jafnaði leikinn í fyrsta sinn í síðari hálfleik. Staðan 77-77 og þrjár sekúndur eftir og þær dugðu Stólunum ekki til að finna gott skot og leikurinn því framlengdur.
Framlengingin var jöfn og spennandi. Pétur kom Stólunum yfir 82-81 og jafnaði síðan leikinn 83-83 þegar hann setti annað víti niður af tveimur. Bæði lið klúðruðu næstu sóknum sínum en þegar 45 sekúndur voru eftir fann Jón Arnór félaga sinn Helga Magg galopinn í vinstra horninu og honum brást ekki bogalistin. KR þremur stigum yfir og eftir misheppnað skot Péturs fór Boyd á vítalínuna og bætti við einu stigi. Stólarnir náðu nú loks að láta boltann ganga vel í næstu sókn og Pétur setti niður þrist og minnkaði muninn í eitt stig. Stólarnir urðu nú að brjóta á KR-ingum til að eiga tíma til að skora en gestirnir reyndust með stáltaugar á vítalínunni og héldu út. Lokatölur 88-91.
Dýsætur sigur KR-inga sem sannarlega eiga heiður skilinn fyrir að gefast ekki upp þegar staðan var orðin strembin.
Hann var aftur á móti súr þessi þorrabiti sem Stólarnir sátu uppi með. Einhverja naflaskoðun þurfa menn að stunda næstu dagana eftir að hafa hent þessum leik frá sér. Nú vantaði talsvert upp á liðsheildina sem var svo frábær í leiknum gegn Njarðvík. Urald King var með 24 stig í kvöld og 12 fráköst, Michael Ojo stóð sig ágætlega í sínum fyrsta leik og var með 17 stig en spilaði kannski fullmikið. Á meðan hann var inni á töpuðu Stólarnir leiknum með 14 stigum en unnu leikinn með 15 stigum á meðan Dino Butorac var inni á. Pétur skilaði 14 stigum og Brynjar 11 en hann var í strangri gæslu. Danero var slakur í kvöld og komst ekkert áleiðis gegn vörn KR.
Í liði KR dró Jón Arnór Stefánsson vagninn lengstum og stjórnaði leiknum – lá reyndar við að hann dæmdi hann líka. Kappinn gerði 34 stig og var hreinlega of góður. Leiðinlegt hvað hann er alltaf í miklu stuði gegn Stólunum. Hann má alveg fara að finna sér eitthvað annað lið til að leika sér að. Julian Boyd átti sömuleiðis frábæran leik, tók 18 fráköst og gerði 26 stig. Hvaða brandari er það að þessi kappi sé ekki nógu góður fyrir KR? Kristófer Acox hefur oft verið meira áberandi í sókninni en hann og Boyd hreinlega lokuðu leiðinni að körfu KR síðustu 20 mínúturnar. Aðeins sex leikmenn KR komust á blað í kvöld en það dugði til sigurs í Síkinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.