Helgi Margeirs ráðinn verkefnastjóri hjá unglingaráði kkd. Tindastóls

Nýr formaður unglingaráðs, Hrefna Reynisdóttir, og Helgi Freyr Margeirsson við undirritun samningsins. MYND AF FB
Nýr formaður unglingaráðs, Hrefna Reynisdóttir, og Helgi Freyr Margeirsson við undirritun samningsins. MYND AF FB

Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Tindastóls hefur ráðið Helga Freyr Margeirsson sem verkefnastjóri unglingaráðs. „Ég er bara mjög spenntur að taka við þessu starfi sem verkefnastjóri hjá Unglingaráði. Það er svo gaman að starfa í körfuboltakreðsunni hérna í Skagafirði, ótrúlegur áhugi á starfinu hvar sem maður kemur og einhvernveginn alltaf eitthvað í gangi,“ sagði Helgi þegar Feykir spurði hvernig verkefnið legðist í hann.

„En já, þetta er í raun nýtt starf hjá deildinni og er í mótun þó auðvitað sé búið að leggja línurnar. Stór partur af því er að leggja upp stefnu fyrir yngriflokkastarf deildarinnar sem unnið verður eftir markvisst að fyrirfram settum markmiðum. Markmiðin eru svo bæði mörg og fjölbreytt, allt frá því að auka gæði þjálfunar, finna leiðir til að auka æfingatíma fyrir körfuboltann í íþróttahúsinu sem er löngu sprungið, fjölga iðkendum af báðum kynjum, halda þeim lengur í íþróttinni og auka sýnileika á starfi yngri flokkanna,“ segir hann.

„Verkefnastjóri er milliliður stjórnar unglingaráðs og þjálfara deildarinnar. Hann sinnir jafnframt tengslum milli elstu iðkenda og meistaraflokka. Hann ber ábyrgð á því að þjálfunarstarf innan félagsins sé í samræmi við stefnur og markmið deildarinnar samkvæmt handbók deildarinnar. Setur upp þjálfunaráætlanir fyrir alla flokka og að þær endurspegli þjálfunarmarkmið námskrár unglingaráðs,“ segir í tilkynningu unglingaráðs á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildarinnar um leið og Helgi er boðinn velkominn til starfa.
 
Helgi minnir á að skráning í Körfuboltabúðir Tindastóls eru í fullum gangi og hvetur hann alla til að koma í þær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir